fimmtudagur, janúar 31, 2008

Kvöld við Tjörnina

Tók 10 km á þægilegum hraða niður í Laugum. Nennti hreinlega ekki að fara að hlaupa úti í frostinu enda þótt ég viti að manni er ekkert kalt þegar á stað er komið. Mánuðurinn slagar hátt í 300 km eins og ætlað var. Allt eftir áætlun.

Hitti Pétur Fransson í búningsklefanum. Hann sagði mér frá því að hann er að leggjast í víking um landið til að boða fagnaðarerindið um hreifingu, skokk og fleira því tengt. Pétur er ekki einhamur við það sem hann tekur sér fyrir hendur. Vonandi gengur þetta vel hjá honum og ég væri meir en til með að leggja honum hendi ef þörf er á og aðstæður leyfa. Svo er vafalaust um fleiri.

Það er fastur liður í tilverunni að á þeim tíma ársins þegar líður að aðalfundum fyrirtækja þá upphefst jarmið í velmenntuðum konum í efri millistétt um kynjahlutfallið í stjórnum stærstu fyrirtækja landsins. Í morgun kom auglýsing frá rúmlega 100 konum sem vilja og geta tekið sæti í stjórnum fyrirtækja. Ég efa ekki að það væri auðvelt að safna saman álíka lista yfir 100 karlmenn sem hefðu bæði kunnáttu og vilja til að taka sæti í stjórnum fyrirtækja en eru óuppgötvaðir á því sviði. Sá er hins vegar munurinn að svona auglýsingar eru af ýmsum taldar konum til framdráttar en karlar sem myndu auglýsa svona væru álitnir fífl. Viðskiptaráðherra stökk fram á sviðið í dag og gaf atvinnulífinu ca tvö ár til að koma hlutfallinu í lag ella yrði kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja bundið í lög. Af hverju er aldrei sagt frá því í fréttum eða fréttaskýringaþáttum að Noregur er eina landið í heiminum sem hefur lögfest þessa hluti. Meðan það fylgir ekki fréttum og umræðu af þessu tagi þá eru á ferðinni grófur hálfsannleikur sem er eins og allir vita ekki betri en hrein lygi.

Ég heyrði í konu í morgunútvarpinu sem lýsti því yfir að "allar rannsóknir sýndu að hagnaður fyrirtækja sem væri með jafnt kynjahlutfall í stjórnum væri meiri en hinna þar sem annað hvort kynið væri í miklum meirihluta í stjórn". Af hverju eru þessar rannsóknir aldrei dregnar fram ef þær eru þá til? Ef þetta er hins vegar rétt þá eru stærstu fyrirtæki landsins í dag einfaldlega í lélegum business. Samt sem áður mokgræða flest stærstu fyrirtæki landsins. Þau myndu sem sagt græða miklu meira ef mark verður tekið á lögbindingarmönnum. Ég veit ekki af hverju það á að bíða í tvö ár fyrst þetta er rakin leið til hagnaðarauka. Ef íslenskir athafnamenn eru svo miklir amatörar að þeir hafa ekki uppgötvað þennan sannleik sem skilar fyrirtækjunum miklum viðbótarábata og viðskiptaráðherra telur sig knúinn til að bæta rekstur þeirra með svo einfaldri aðferð þá er rétt að spyrja hvort hann sé að fara yfir rekstur þeirra að öðru leyti með það fyrir augum að leggja til úrbætur í rekstri og fjárfestingarstefnu. Það hlýtur að vera fyrst þetta er einvörðungu spurning um afkomu og ágóða. Ég veit hins vegar ekki hvað þeim sem kosnir eru á þing til að setja þjóðinni lög kemur það yfir höfuð við hverjir sitja í stjórnum fyrirtækjum á almennum markaði. Þingið getur sett lög um kynjahlutfall í stjórnum ríkisstofnana og fyrirtækja sem ríkið á, sveitarstjórnir geta tekið ákvörðun um kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja og stofnana sem eru á vegum viðkomandi sveitarstjórna en atvinnulífið sem vinnur á hinum frjálsa markaði á einfaldlega að ráða sér sjálft að þessu leyti. Af hverju eru ekki sett lög um kynjahlutfall í öðrum stjórnunarstörfum fyrst það er svo mikilvægt að jafna kynjahlutfallið í þeim störfum sem unnin eru við stjórnun stærstu fyrirtækja landsins? Það má til dæmis nefna skipstjórnendur, stjórnendur vinnuvéla, bifreiðastjóra, skólastjórnendur og ráðherra í ríkisstjórn landsins. Af nógu er að taka.

Góður dagur í Djúpinu

miðvikudagur, janúar 30, 2008

Þrjátíu mínútna Ívar í gær. Fín æfing. Tók 8 km Yasso æfingu í dag. 800 m á 15 og 200 m á 12.5. Ég finn hvað maður er hraðari nú en í fyrra. Ég komst upp í 15 (4 mín / km) undir vorið í fyrra í Yasso æfingum en nú er þetta ekkert mál. Ætla að halda þessum hraða á Yasso út febrúar en þá herði ég á því. Einnig þarf ég að taka aðrar sprettæfingar inn i s.s. 5 * 2 km á ákveðnum hraða. Sé að hún er miki notuð.

Hlaupadagbókin sem Stefán setti upp er mjög fínt tæki. Það er til dæmis mjög gaman að fylgjast með því hvað aðrir eru að gera. Það er magnað að hlaupa yfir 500 km í janúar því aðstæður hafa ekki verið upp á það besta. Neil er kominn hátt í 700 km í janúar en hann er nú ekki venjulegur. Ég er á pari. Ætlaði að fara um 300 km í janúar og það tekst svona hér um bil. Það verður líklega heldur meira í febrúar og síðan stig af stigi.

mánudagur, janúar 28, 2008

Skessuhorn

Mér leist ekkert á veðrið í gærmorgun, rok og skítaveður, svo ég fór niður í Laugar á brettið. Kláraði 20 km sem er það lengsta sem ég hef tekið á bretti. Það hefði ekki verið neitt mál að halda áfram en ég va rorðinn tímabundinn upp úr kl. 11.00. Geri það síðar. Þetta venst ágætlega ef maður hefur eitthvað til að hlusta á og líður tiltölulega hratt. Manni finnast fyrstu kílómetrarnir vera langir því þá er svo mikið eftir en svo fer þetta að líða hraðar. Það er hins vegar mikill munur á að hlupa inni eða úti því úti er alltaf eitthvað sem ber fyrir augu og dreifir huganum.

Ágætt viðtal við Öggu á laugardaginn á Rás 1. Það er gaman að finna það að hlauparar eru að fá meiri athygli. Það er örugglega svo að þetta sáir fræjum hjá einhverjum sem fer að hugsa; "Ef hann/hún getur þetta þá hlýt ég einnig að geta það."

Annar fl. Víkinga keppti í handbolta við Selfyssinga fyrir austan í gærkvöldi. Við fórum Þrengslin því það var enn skítaveður á heiðinni. Strákarnir stóðu sig vel og rúlluðu yfir austanmenn í fyrri hálfleik. Heldur dró af þeim í seinni hálfleik en þeir innbyrtu engu að síður öruggan og sætan sigur og eru þar með komnir í undanúrslit í bikarkeppninni.

Enda þótt ég hafi ekki alltaf verið sammála Merði Árnasyni í pólitík þá er ég mjög ánægður með að hann hafi tekið kjördæmaskipanina til Alþingiskosninga í Reykjavík upp á þinginu. Hann hefr lagt fram frumvarp þess efnis að Reykjavík verði eitt kjördæmi. Að kljúfa borgina upp eftir Hringbraut og Miklubraut í kosningum til Alþingis er rökleysa að mínu mati. Borgin er eitt hagsmuna-og áhrifasvæði og á að hafa stöðu sem slíka í Alþingiskosningum. Eitt af því sem ég og fleiri beittum okkur sérstaklega fyrir innan Framsóknarflokksins á sínum tíma meðan maður starfaði þar var að sameina félagsstarfið innan borgarinnar. Framsókn tók það óheillaskref við kjördæmabreytinguna að kljúfa allt félagsstarf í borginni upp eftir kjördæmaskipan til Alþingis. Við komum nokkur saman lagabreytingartillögu þessa efnis gegnum landsþing flokksins fyrir þremur árum með örfárra atkvæða mun í auknum meirihluta gegn massívri andstöðu þ.m.t. frá forystu flokksins. Ég skildi aldrei hvaða hvatir lágu að baki þessari andstöðu frekar en ýmislegt annað. Nú er hins vegar búið að sameina flokkstarfið í Reykjavik og allir sammála um að það sé eina vitið. Vona að Mörður fái stuðning við þetta frumvarp sitt.

laugardagur, janúar 26, 2008

Ráðhúsið að kvöldlagi

Tók 20 km í morgun með Jóa og Stebba. ekki eins langt og ætlað var en samt ágætt. Heyrði gott viðtal við Öggu í útvarpinu í dag. Fín yfirferð og vonandi að það hafi skilið eftir fræ í hugum einhverra.

Spjallaði við gamlan félaga í gær. Hann er að verða fimmtugur í ár og er nýlega farinn að hreyfa sig reglubundið. Hann er búnn að setja sér það markmið að vera í betra formi á fimmtugsafmælinu (sem er í ár) heldur en hann var á fertugsafmælinu. Þetta er fínt markmið. Þegar því hefur verið náð þá kemur næsta markmið og svo koll af kolli. Meginmálið er að setja sér markmið. Vita hvert maður er að fara. Annars er þetta ferð án fyrirheits. Skrokkurinn er eitt af því dýrmætasta sem maður á og það er eðlilegt að hann fái smá sinningu. Ég las einhversstaðar að það væri eitt að mikilvægustu atriðunum í öldrun hvernig skrokknum væri sinnt á árunum milli fimmtugs og sextugs. Það er ekki órökrétt. Þegar maður er yngri er álagið á skrokkinn oft verulegt bæði vegna vinnu og annarra hluta. Þá er endurnýjunargeta hans mikil og hann stendur ýmislegt af sér. Þegar endurnýjunargetan minnkar þá lætur eitthvað undan ef álagið er óbreytt frá fyrri árum. Því skiptir máli að fara að hugsa meir um líkama og sál þegar árin telja. Reglubundin hreyfing er einn þáttur í þessu ferli.

Það hefur ýmislegt gengið á að undanförnu hjá borginni. Við sem vinnum hjá Sambandi sveitarfélaga erum passífir áhorfendur enda þótt það komi fram ýmsar skoðanir á kaffistofunni. Ég verð þó að segja að vitleysisgangurinn á áhorfendapöllunum á miðvikudaginn fór úr böndunum og gekk alltof langt. Í hugum margra sem ég hef heyrt í virkaði þetta í andhverfu sína. Það er merkilegt hve umræðan er komin út og suður. Fólk sem er virkt í stjónmálum er farið að tala um að það þurfi að beita 26. grein svetiarstjórnarlaga þar sem sveitarstjórn getur óskað eftir því að sveitarstjórn nágrannasveitarfélags taki yfir stjórnsýsluna í Reykjavík. Þessi möguleiki er einungis hugsaður í þeim tilvikum sem náttúruhamfarir hafa leikið einhvert sveitarfélag það grátt að sjórnsýslan er óstarfhæf. Menn verða aðeins að anda með nefinu og telja upp að tuttugu. Einhver talaði um að þarna væri lýðræðið í framkvæmd þegar ekki væri hægt að halda áfram formlegri dagskrá vegna hávaða og öskra. Það er ekki lýðræði ef óskipulagður múgur gerir stjórnkerfið óstarfhæfrt heldur anarkismi. Lýðræði er að starfa eftir þeim reglum sem lýðræðisþjóðfélag byggir á. Það er ekki lýðræði ef einhver örlítill hávær hópur gerir stjórnsýsluna óstarfhæfa.

Ólætin áttu uppruna sinn í því að starfandi meirihluti sprakk og annar meirihluti var myndaður. Ég ætla ekki að blanda mér í umræðu um hvernig það bar að en svona gerast kaupin á eyrinni. Hvaða einstaklingur sem hefur hlotið kosningu til Alþingis eða sveitarstjórna getur tekið sjálfstæða ákvörðun sem þessa. Það er hinsvegar óvanalegt enda betra að þetta sé undantekning frekar en regla þegar skilvirkni stjórnsýslunnar er tekin inn í myndina.

Ég þekki persónulega hvernig er að lenda í þessari stöðu. Ég starfaði sem svetiarstjóri á Raufarhöfn á árunum 1994 - 1999. Framan af sem ráðinn sveitarstjóri en við kosningarnar 1998 tók ég í 3ja sæti G listans sem var hreinn Alþýðubandalagslisti. Þriðja sætið var baráttusætið í kosningunum. Tveir listar voru í framboði svo það var kosið um hreinar línur. Við unnum með eins atkvæðis meirihluta og var það einsdæmi á landinu fyrr og síðar utan Neskaupstaðar að hreinn Alþýðubandalagslisti næði meirihluta í kosningum til sveitarstjórnar. Ég starfaði sem sveitarstjóri áfram en var einnig orðinn virkur sveitarstjórnarmaður. Þegar um ár var liðið af kjörtímabilinu tilkynntu félagar mínir tveir í meirihlutanum að nú væri samstarfinu slitið og þeir höfðu myndað nýjan meirihluta með einum af hinum listanum. Þannig var það. Ég var þarna án fyrirvara orðinn atvinnulaus og einnig hafði þetta í för með sér brottflutning af staðnum. Mér datt hinsvegar ekki í hug að ausa fyrrum félaga mína fáryrðum með ásökunum um óheilindi eða undirferli. Þetta var bara svona, leiðir höfðu skilið og við því var ekkert að gera. Samstarf í stjórnmálum byggir á heilindum og vilja til samstarfs. Ef þær aðstæður eru ekki fyrir hendi þá skilja leiðir. Flóknara er það ekki. Enda þótt það sé munur á stærð Reykjavíkur og Raufarhöfn hvað íbúafjölda varðar þá er það með þessi sveitarfélög eins og með fíl og mús, kerfið byggir á sömu principum.

Mótmæli gagnvart ákvörðunum stjórnmálamanna eru eðlileg og sjálfsögð. Þau verða hins vegar að fara eftir settum lýðræðislegum reglum. Ef það er ekki gert er vegið að grunni lýðræðisins. Slík skref er best að taka af íhygli.

miðvikudagur, janúar 23, 2008

Æfingar eru svona upp og ofan. Tók 30 mínútna Ívar á mánudaginn. Fín æfing sem tekur í. Þarf að lengja hana smátt og smátt því hún er gríðarlega góð undirstaða undir göngur í brekkum. Tók 15 km í kvöld. Fór Poweratehringinn og Grensássslaufuna. Fínt hlaup og bara léttur enda þótt færið sé ekki upp á það besta.

Ég fékk fyrir stuttu boð um að mæta í Höfða í dag kl. 17.00. Þar var Afreks-og styrktarsjóður Reykjavíkur að úthluta styrkjum. Þarna var rjóminn af íþróttafólki Reykjavíkur samankominn, bæði forystufólk, þjálfarar og afreksfólk þannig að ekki var félagsskapurinn af verri endanum. Ég sá auglýsingu frá sjóðnum í síðasta mánuði og sótti um styrk úr honum vegna þátttöku í Spartathlon hlaupinu í haust. Maður fær ekkert ef maður reynir ekki. Í dag fékk ég svo úthlutað styrk úr þessum ágæta sjóð til að standa straum af kostnaði við að taka þátt í Spartathlon hlaupinu í Grikklandi í haust. Ég er afar ánægður með þessa viðurkenningu á ýmsa lund. Bæði er það náttúrulega mjög gott að þurfa ekki að klípa af heimilispeningunum til að kosta svona ævintýri en einnig og ekki síður er ég ánægður með að ofurmaraþon séu metin til jafns við aðrar íþróttir á þessum vettvangi. Það er líklega í fyrsta sinn hérlendis að það er gert. Kann ég forystumönnum ÍBR bestu þakkir fyrir þá viðurkenningu til handa íþróttagreininni sem slíkri. Þessi athöfn í Höfða mun hafa verið síðasta formlega embættisverk Dags B. Eggertssonar borgarstóra (að sinni eins og hann sagði).

Það hefur gengið ýmislegt á í borgarmálunum að undanförnu og ætla ég ekki að hafa skoðun á því utan einu atriði. Það er nefnilega hálf hjákátlegt að sjá fréttamenn æða um borgina og spyrja vegfarendur hvort eigi ekki bara að kjósa upp á nýtt þegar það er rækilega ákveðið í landslögum að það er einungis kosið til sveitarstjórna á fjögurra ára fresti. Það þarf ekki nema eitt símtal til að sleppa við svona misskilning.

sunnudagur, janúar 20, 2008

Nou Camp i Barcelona

Það hefur verið lítið hlaupið og enn minna skrifað í vikunni. Sumir dagar eru þannig að það er annað sem gengur fyrir. Stundum koma þeir margir í röð. Ég var að stússast í að koma jeppanum í gegnum skoðun í síðustu viku. Fullnaðarskoðun fékkst á hann fyrir 09 á fimmtudaginn þannig að nú getur maður um frjálst höfuð strokið með hann í nær tvö ár.

Tók gott hlaup með Neil, Jóa og Stebba á laugardaginn. Fór út um kl. 7.00 og fór fyrst Poweratehringinn og hitti þá við brúna um kl. 8.30. Fórum Eiðistorgshringinn og það passar að þá er maður kominn 30 km við göngubrúna hér fyrir neðan.

María var að keppa á ÍR mótinu á laugardag og sunnudag. Henni gekk vel og náði nokkrum verðlaunasætum. Þetta er allt á réttu róli eins og vera ber.

Sambandið hélt stjórnarfund á Egilsstöðum á föstudaginn. Á leiðinni austur fékk vélin á sig snarpan hnút þega rkomið var yfir Héraðið eins og komið hefur fram í fréttum. Ég hef nokkuð oft verið í flugvél sem hefur fengið á sig hnút en þessi var sá snarpasti sem ég hef fundið. Það var eins og sparkað hefði verið að miklu afli í vélina og maður hékk í beltinu. Það munaði litlu að Svandís borgarfulltrúi slasaðist alvarlega þegar hún hentist upp í loft sökum þess að sætið sem hún sat í var laklega fest niður. Hún vankaðist við höggið en náði sér fljótt. Engu að síður þótti tryggara að hún færi undir læknishendur enda eðlilegt að það sé skoðað til hlýtar hvort skaði hafi hlotist af þessu áfalli. Á vef flugfélagsins sá maður að flugstjórinn hafi farið yfir málin með farþegunum. Ég veit ekki hvað maður á að kalla það en hann sagði í kallkerfið að það kæmu oft svona hnútar á þessu svæði. Síðan sagði hann vonast eftir að ferðin hefði að öðru leyti verið ánægjuleg. Í blöðum sá maður haft eftir framkvæmdastjóra Flugfélagsins að öllum farþegum hefði verið boðin eða veitt áfallahjálp. Ég veit ekki um aðra farþega en ég heyrði alrei minnst á neina áfallahjálp né að öðrum hefði verið boðin hún.

Ég heyrði sagt frá því á fundi á mánudaginn þegar flugvélin þurfti að snúa frá Keflavík eftir að hafa reynt tvisvar að lenda þar og sneri til Egilsstaða. Það hefur verið mjög dramatísk ferð því þegar hún sneri frá Keflavík eftir seinni tilraunina þá fékk hún vindhnút á sig í uppkeyrslunni og virtist hrapa niður. Það voru vafalaust mjög erfið augnablik, fólk ældi og margir héldu að vélin væri að fara niður. Hún nötraði enda á milli í átökunum en allt hafðist þetta. Það sem kom mjög illa við marga þegar lent var fyrir austan að þá tók enginn við stjórninni. Fólk þurfti að sjá um sig sjálft sem margt var gjörsamlega þrotið að andlegum kröftum. Reyndar komu einhverjir og seldu farþegunum samlokur en annað var það ekki. Fréttin snerist hins vegar um að farþegum hefði verið veitt áfallahjálp sem voru í flugvél sem lenti á Egilsstöðum eftir að hafa þurft að snúa frá lendingu í Keflavík.

þriðjudagur, janúar 15, 2008

Selstubbur að kíkja

Ég er búinn að nota Herbalive vörur frá því í haust. Ég nota fyrst og fremst Formúlu 1 og Formúlu 3 fyrir og eftir lengri æfingar. Ég er ánægður með það og sérstaklega hvað ég drekk minna á hlaupum eftir að ég er farinn að nota þessa blöndu reglulega í sambandi við æfingar. Svo er annað. Ég keypti mér Herbalive te í desember og hef ekki drukkið annað te síðan þá, hvorki heima eða í vinnunni. Það hefur m.a. þann kost að það er hægt að blanda það bæði kalt og heitt. Síðan keypti ég mér svokallaðar Male factor töflur til prufu snemma í desember. Mér var sagt að þær verkuðu vel á blóðrásina og einnig á blöðruhálskirtilinn. Eins og margir karlar á mínum aldri þá var maður farinn að fara á klósettið á nóttunni sem reglu frekar en undantekningu. Ég gerði bara ráð fyrir því að þetta væri bara svona og væri komið til að vera því maður hefur heyrt af því að þetta fylgdi aldrinum eins og breytingar á sjón o.fl. Það er hins vegar staðreynd að ég hef aldrei þurft að fara á klósettið á nóttinni eftir að ég byrjaði að drekka Herbalive teið og taka Male factor töflurnar (eina á morgnana og eina á kvöldin). Ekki veit ég hvað veldur en hitt er að þetta er staðreynd. Mér finnst breytingin jákvæð og sé ekki ástæðu til að taka upp fyrri tedrykkjusiði eða leggja af notkun á Male factor töflunum. Gaman væri ef einhver annar á álíka aldri og ég er og er farinn að fara fram úr á nóttunni vildi fara í smá tilraunastarfsemi í þessum efnum.

laugardagur, janúar 12, 2008

Bryggjuhverfið í Stavanger er flott

Fínn túr í morgun. Við Gauti lögðum upp kl. 8.00 og hittum Neil, Jóa og Stebba við brúna kl. 8.30. Fórum yfir Kópavogshálsinn, upp Fífubrekkuna og suður að Vífilsstöðum. Tókum löngu brekkuna og upp að Elliðavatni, þaðan yfir að Rauðavatni, fram hjá Moggahúsinu og niður í Grafarvogsbotn. Þaðan fórum við upp að kirkjugarðinum, þverti yfir á göngustíginn, tókum slaufu í vestur og svo yfir brúna og heim. Alls 30 km í fínu vetrarveðri. Margir slóðar sem ég hafði ekki farið áður.

Það var skrítið viðtal við tvo að ég held rithöfunda í Kastljósinu í fyrradag. Ég átti í erfiðleikum með að skilja hvað var verið að ræða um svo ég hlustaði á það aftur á vefnum. Mér skilst að þau hafi skrifað bók og fengið hóp teiknara til liðsinnis til að láta okkur finna hvernig múslimum hefði liðið eftir að hafa séð teikningarnar í Jyllandspóstinum. Ég hef ekki lesið bókina en mér fundust myndirnar fara fyrir ofan garð og neðan og ekki vera á neinn hátt aggressivari en þær skopmyndir sem maður sér daglega í Mogganum eða 24 stundum. Margar heldur kauðslegar. Í vinnunni fannst mörgum mjög fyndið að rifja upp myndina af Bónusgrísnum að taka jólaköttinn aftan frá (eða var það víkingur). Menn hlógu að þessu en engum fannt þetta vera særandi eða móðgandi. Því var þetta algerlega misheppnað projekt hvað það markmið varðar. Annar rithöfundurinn sagði að allir hefðu talað um að Jyllandspósturinn hefði verið að verja tjáningarfrelsið en enginn minntist á frelsi múslimanna til að mótmæla sem hefði verið skert gróflega. Nokkrir hefðu meir að segja látist í mótmælunum án þess að það þætti fréttnæmt. Þessi náungi sleppti því náttúrulega að segja satt og rétt frá. Hið rétta er að Islamarnir fóru í herferð til múhameðstrúarríkjanna mörgum mánuðum eftir að teikningarnar birtust í JP og æstu fáfróðan og illa upplýstan lýðinn upp með upplögnum sögum og fölsuðum teikningum. Múgurinn réðist í framhaldi af því á sendiráð Danmerkur í mörgum löndum og her og lögregla var send á vettvang til að verja fólk og byggingar. Rithöfundurinn gleymdi einnig að minnast á það þegar hann var að býsnast yfir hinu skerta tjáningarfrelsi lýðsins þarna austur frá að árás á sendiráð jafngildir árás inn í viðkomandi ríki. Það er ekki verið að skerða tjáningarfrelsi þegar verið er að verja mannslíf sendiráðsstarfsmanna fyrir óðum skríl og koma í veg fyrir að hann geri innrás í erlent ríki. Þetta er svo sem vel þekkt aðferðafræði sjálfskipaðra menningarvita að það er einungis talað um það sem kemur málstaðnum vel en hinu sleppt. Starfsmaður sjónvarpsins talaði síðan tóma steypu í þættinum og hafði greinilega ekkert kynnt sér málin. Bendi henni á að lesa bókina Islamistar og naivistar. Í þessum þætti sátu þrír naivistar og bulluðu.

Ég hef séð tvær fréttir í erlendum blöðum á síðustu dögum sem skýra frá því að feður hafi drepið dætur sínar þegar þær reyndu að losna undan ógnarvaldi trúarofstækis múhameðstrúarinnar og reyndu að aðlagast vestrænum lifnaðarháttum. Hvenær ætla menn almennt hérlendis að opna augun fyrir þeim hrylling sem viðgengst innan þessara hópa í nafni trúarinnar. Í Bretlandi er talið að milli 60 og 70 þúsund stelpur séu umskornar á hverju ári. Vita menn hvað umskurður á stelpum er? Það mætti halda að fjölmenningarvitarnir hafi ekki hugmynd um það. Þeir myndu kannski átta sig á því hvers eðlis þessi verknaður er ef það væri gert við þá sjálfa.

Af hverju skýrir Mogginn ekki frá því að það var litháenskt glæpagengi sem réðist á lögregluna á Laugaveginum. Eru menn orðnir svo meðvitaðir í Hádegismóunum að það má ekki lengur tala um hlutina eins og þeir eru?

föstudagur, janúar 11, 2008

Haust á Rauðasandi

Hlaupadagbókin sem Stefán Þórðarson benti mér á í gær er flott framtak og afar gott skref fram á við. Kosturinn við þessa dagbók er að þar getur maður séð hvað aðrir eru að gera og hvernig maður stendur í samanburði við ýmsa aðra fyrir utan að hafa samanburð við sjálfan sig frá fyrri árum. Þetta heldur manni einnig við efnið þannig að maður dragist ekki aftur úr þeim sem stunda æfingar af miklu kappi. Ég sé ekki annað en að ég sé á ágætu pari. Stefni að því að fara um 300 km í mánuðinum og það á að ganga upp ef ekkert sérstakt kemur upp á. Svona 75 km í viku. Mér finnst gott að taka tíma í þrekæfingar inni og hraðahlaup á bretti á þessum tíma. Það er gott innlegg fyrir seinni tíma.

Það er rétt að minnast tveggja höfðingja í dag. Hinn fyrri er Edmund Hillary sem kleif fyrstur Mt. Everset ásamt sherpanum Norgay. Maður sér best hvílíkt afrek þeir unnu þegar það reynist flestum fjallgöngumönnum fullerfitt að ganga á fjallið í dag með öllum þeim nútíma búnaði sem til er. Því er varla hægt að ímynda sér hvernig þetta var hægt á sínum tíma. Ég hef lesið ævisögu Hillarys og hún er einfaldlega mögnuð ævintýrabók sem ætti að vera öllum ungum einstaklingum skyldulesning og þar með hvatning til dáða.
Seinni afreksmaðurinn sem ekki síðri á sína vísu er íslendingurinn Eyjólfur sundkappi sem hóf sjósund til efstu hæða á sínum tíma og er frumkvöðull sjósunds hérlendis. Hann synti frá Vestmannaeyjum til lands, Drangeyjarsundið tvisvar, upp á Akranes og var fyrstur íslendinga í stakk búinn til að takast á við Ermarsundið enda þótt honum tækist ekki að ljúka þeirri miklu raun. Það liðu einhver 50 ár þangað til næstu menn íslenskir töldu sig tilbúna til að takast á við það mikla sund. Eyjólfur var ekki hraustmenni á yngri árum en tókst að sigrast á ýmsum heilsufarslegum erfiðleikum og skráði nafni sitt óafmáanlega í íslenska íþróttasögu. Síðan má ekki gleyma því að hann á flestum frekar lífið í íþróttafélaginu Þrótti. Minningarathöfn um Eyjólf var haldin í Bústaðakirkju í dag en hann lést á Nýja Sjálandi fyrir jólin. Alnafni hans ungur spilaði í þeirri merku hljómsveit The Beautifuls í nokkur misseri hér í bílskúrnum og hefur mér til mikillar ánægju haldið merki afa síns og föður, sem báðir eru nú látnir, á lofti með því að stunda sjósund, m.a. á nýjársdag.

Víkingur vann ÍR í kvöld í Víkinni og stimplaði sig þar með inn aftur í keppni efstu liða eftir fiaskóið á móti Gróttu fyrir jólin. Á morgun spilar 2. flokkur við Gróttu úti á Nesi.

fimmtudagur, janúar 10, 2008

Gamli Garðar stendur vaktina í botni Patreksfjarðar

Danir koma sterkir inn í ultrahlaupum í ár. Þetta sýnir betur en margt annað hvaða gróska er í þessum málum hjá nágrönnum okkar.
Í Kaupmannahöfn verður haldið 100 km hlaup þann 26. apríl. Það verður hlaupið í Kongsholmsparken á 10 km hring. Án efa þægilegt og einfalt. Einnig er hægt að hlaupa 60 km hlaup og einfalt maraþon ef menn vilja máta sig við styttri vegalengdir.
Í Stige i Odense sem við höfum góða reynslu af verður haldið 100 km hlaup þann 3. maí. Það er hlaupið á 5 km hring sem er breyting frá því sem áður var en þá var hlaupið á 10 km hring. Einnig verður hægt að haupa 50 km.
Á Borgundarhólmi verður haldið 6 tíma, 24 tíma og 48 tíma hlaup dagana 23. og 24. maí. Ég er búinn að skrá mig í 24 tíma hlaupið en Börkur Árnason og Ásgeir Elíasson er skráðir í 48 tíma hlaupið. Þetta er fínt hlaup og framkvæmdin í öruggum höndum Kim Rasmussens, þess mikla hlaupara.
Í Fredricia verður haldið 50 og 100 km hlaup þann 14. júní.
Ég veit ekki enn um Borgundarhólm seint í ágúst og Álaborg snemma í september. Kemur í ljós.

Það er sem sagt úr nógu að velja ef hlauparar vilja skreppa til Danmerkur og hlaupa langt. Kíki bráðlega á hvað Norðmenn og Svíar ætla að gera á árinu í þessum málum.

Það er ansi skemmtileg umræðan um húsin neðst á Laugaveginum og fróðlegt að sjá hvernig áhugasamir missa sig í umræðunni. Skyndilega eru þessi litlu, óásjálegu og lélegu hús orðin slíkar perlur að annað eins hefur ekki sést í byggingarsögunni, ef taka á mark á orðum sumra sem hafa látið ljós sitt skína á þessu sviði. Mér finnst að það ætti að rífa þau sem fyrst og byggja almennileg hús þarna sem rúma einhverja starfsemi sem bætir miðbæinn og neðsta hluta Laugavegar. Það var í sjálfu sér mjög fróðlegt að fá upplýsingar um reikninginn sem getur lent á borgarbúum ef tillögum húsafriðunarnefndar verði fylgt. Staða hennar er kapítuli út af fyrir sig. Að mínu mati á hún að segja af sér því hún er ekki starfi sínu vaxin. Það kemur í ljós bæði í umfjöllun um þetta mál og eins með húsin á Akureyri. Nefndin hefur haft allan heimsins tíma til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri meðan málið hefur verið í umfjöllun í borgarkerfinu. Ef húsin eru svo verðmæt sem sögur fara af þá hefur nefndin ekki staðið vaktina. Ef nefndin hefur hins vegar metið það svo á fyrri stigum málsins að húsin mættu fara en lætur síðan undir þrýstingi á síðustu dögum fyrir rif þá er hún einnig ekki starfi sínu vaxin heldur sveiflast fyrir veðri og vindum.

Maður velti stundum fyrir sér ritstjórnarstefnu Kastljóss. Stundum er hún í lagi en stundum er hún fyrir neðan allar hellur. Hvaða erindi átti við almenning langt viðtal við dópista og dópinnflytjenda með dramatískum tónlistarinnslögum sem hafði síðan ekkert hafði fram að færa nema að hann státaði sig af því að segja ekki til aðalkallanna? Þetta er ekki í fyrsta sinn sem verið er að taka dramatísk viðtöl við dæmda glæpamenn í Kastljósinu á viðlíka nótum. Ég veit það bara að ég skil ekki svona og svo er um flesta sem maður heyrir tjá sig um þetta. Af hverju eiga þeir sem hafa einhvern tíma rambað inn á síður Séð og Heyrt að fá sérstaka meðhöndlun hjá fjölmiðlum og ekki síst ríkisfjölmiðlum? Mér er skítsama þótt þessi náungi segist vera burðardýr. Það var ekkert smá magn sem hann var með á sér. Hvað ætli tvö kíló af kókaíni geti rústað lífi margra unglinga? Hvernig ætli refsitíminn sé svo samsettur? Einhver vist á Hrauninu, einhver vist á Kvíabryggju og síðan reynslulausn. Skyldi gaurinn fá afslátt af skuldinni fyrir að vera tekinn?

laugardagur, janúar 05, 2008

Við einn checkpúntinn með Angmassaliq í baksýn

Gott veður til hlaupa í morgun. Fór út um kl. 8.00 og hitti strákana við brúna. Við vorum alls sex sem hlupum til Bessastaða og til baka, samtals um 30 km. Fínn túr og löppin eins og best verður á kosið.

Eftir áramótin 1980 var ég í vinnu á Patró, bæði í bræðslunni hjá Kidda Friðþjófs og síðan á sjó á Jóni Þórðar. Nýkominn frá Kúpu þar sem ég var í heilan mánuð. Það eru liðin 27 ár síðan. Í aprílbyrjun þennan vetur kom út plata sem breytti mörgu og var eins og ferskur vindur í þetta umhverfi okkar svo og fjölmargra annarra. Það var vitaskuld platan Ísbjarnarblús með Bubba og Utangarðsmönum. Hrátt eðalrokk og textar beint úr þeim raunveruleika sem maður lifði á þá þessum tíma. Á eftir Ísbjarnarblús fylgdu margar góðar plötur og allir þekkja framhaldið. Engu að síður skipar þessi plata og lögin á henni sérstakan sess í huga manns. Þegar maður horfir upp á það nú að Bubbinn sé að syngja þessi lög smóking klæddur með lúðrasveit sem undirleikara þá má vel vera að það höfði til einhverra þótt ekki hafi tekist að fylla höllina. En mikið óskaplega langar mig lítið að fara á þessa tónleika og hlusta á Ísbjarnarblús útsettan fyrir málmblásturshljóðfæri og smóking.

Megas bregst hins vegar aldrei, alttaf jafn ferskur og líkur sjálfum sér.

Enn ein hræðilega illa unnin frétt var í hádegisútvarpinu í gær. Maður komst að því á endanum að í henni var verið að segja frá því að flugvél hafði orðið að fljúga til Egilsstaða eftir að hafa orðið að hverfa frá lendingu á Keflavíkurflugvelli. Greinilega var fréttatilkynning Flugleiða lesin upp óbreytt og gagnrýnislaus. Það var ekki fyrr en langt var liðið á lestur fréttarinnar að maður komst að því um hvað málið snerist. Fréttin byrjaði á því að farþegum hefði verið boðin áfallahjálp. Hvers vegna vissi maður ekki. Síðan kom fram í fréttinni að flugvél hafði lent á Egilsstöðum. Hvers vegna vissi maður ekki. Loks kom fram að flugvélin hafði ekki getað lent í Keflavík vegna veður. Punchlinen í fréttinni var hins vegar að þaim hafði verið boðin áfallahjálp. Þetta eru náttúrulega engin vinnubrögð. Mér væri sama ef ég þyrfti ekki að borga vinnulaunin við þessi ósköp.

Ágætt viðtal er við bæjarstjórann í Vesturbyggð í helgarblaði DV. Skoðun hans er sú að Vestfirðir fari í eyði innan 50 Ára að óbreyttu. Ég held að það taki ekki svo langan tíma ef engar breytingar verða á þeirri þróun sem hefur átt sér stað á liðnum árum og áratugum. Á Bíldudal bjuggu nær 400 manns fyrir 25 árum. Nú eru þeir 180. Íbúum þar hefur fækkað um rúm 40% á síðustu 10 árum. Um 1980 bjuggu nær 1100 manns á Patró. Nú búa þar rúmlega 600 manns og er töluverður hluti þeirra af erlendu þjóðerni. Það er ekkert verra fólk en aðrir en reynslan sýnir að það er óvirkara í margháttuðum félagsstörfum sem svona samfélög byggjast ekki síður á en atvinnulífinu. Umræða um olíuhreinsunarstöð í Arnarfirði eða Dýrafirði hefur verið nokkuð fyrirferðarmikil á undanförnum mánuðum. Heimamönnum þykir ánægjulegt að sjá ljós í því rökkri sem hefur hvílt yfir þessum samfélögum um áraraðir. Alls konar besservisserar sem búa í Reykjavík eru hins vegar fljótir á lappirnar og finna þessum hugmyndum allt til foráttu. Það má ekki gera þetta heldur eitthvað annað. Byggja háskóla. OK en hvaðan á fólkið að koma í þennan háskóla. Á Vestfjörðum búa tæplega 8.000 manns. Bæjarstjórinn í Vesturbyggð hefur verið að skrifast á við einn af þessari breiðfylkingu forsjárhyggjumanna sem hefur fundið þessum hugmyndum allt til foráttu. Þarna má ekkert gera að þeirra mati heldur hafa þetta allt eins kósí eins og það er í dag. Það er svo gaman að rúlla þarna um á svona 5 ára fresti, taka myndir og anda að sér hreinu lofti, bruna svo í bæinn og undrast hvers vegna nokkur maður geti hugsað sér að eiga þarna heima. Þessi bréfvinur bæjarstjórans í Vesturbyggð var líka á móti Gilsfjarðarbrúnni og er einnig á móti vegabótum í Austursýslunni sem taka af hálsana svo hægt verði að keyra vestur í öllum venjulegum vetrum. Ég hef ekki farið út í Teigsskóg en ég veit að fyrrverandi umhverfisráðherra gekk hann allann áður en hún tók ákvörðun í málinu. Ég veit hins vegar að Gilsfjarðarbrúin er fyrirmyndarmannvirki sem hefur ekkert gert nema gagn fyrir nágrannabyggðir og eins þá sem fara sjaldnar um og ekki skemmt nokkurn skapaðan hlut. Ég er heldur ekki búinn að gleyma umræðunni sem átti sér stað þegar Vatnaleiðin var lögð. Það var eins og heimurinn væri að farast í huga ýmissa. Það virðist vera svo að það megi ekki gera nokkurn skapaðan hlut þegar komið er út fyrir ákveðinn radíus frá Reykjavík en á sama tíma eru lagðar pípur um Hellisheiðina þvers og kruss og enginn opnar munn. Það er álíka með svona lagaða umræðu og alkana sem koma óorði á brennivínið. Fínt hjá bæjarstjóranum að grípa til pennans. Ég tek fram að ég veit ekki mikið um olíuhreinsunarstöðvar en þykir eðlilegt að það sé skoðað til hlýtar hvort það sé skynsamlegt að setja upp eina slíka í Arnarfirði eða Dýrafirði. Einhversstaðar verða þær að vera.

fimmtudagur, janúar 03, 2008

Ásgeir, Stefán og undirritaður að skoða sig um í Angmassaliq

Ég keypti dálítið af diskum með Johnny Cash úti í London. Það er mjög gaman að koma í búðir þar sem ALLT er til. Þá verða freistingarnar oft skynseminni yfirsterkari. Ég er að láta DVD disk rúlla í gegn frá konsertinum í San Quentin fangelsinu árið 1969. Ég á plötuna frá þessum fræga konsert en hef ekki átt DVD diskinn fyrr. Fékk konsertinn komplett á tveimur CD diskum með DVD aukadisk á ca 10 pund sterling. Myndin "Syndir feðranna" kemur upp í hugann þegar Johnny Cash syngur lagið San Quentin lagið. "San Quentin you've been a living hell to me" og "San Quentin, I hate every inch of you". Þetta er lagt í munn fanganna í fangelsinu en er eins og mælt úr munni þeirra sem rifjuðu upp tímann í Breiðuvík hér á árum áður. Sá er hins vegar munurinn að í San Quentin fangelsinu sátu fullorðnir menn en í Breiðuvík voru vistaðir unglingar og allt niður í smábörn. Það eina sem þarf að gera er að skipta út San Quentin og setja Breiðavík í staðinn þá smellur allt saman við íslenskan veruleika eins og hann var.

Fréttamatið er oft furðulegt og á í raun oft ekki neitt skylt við fréttir en flokkast miklu frekar undir uppfylliefni. Skilgreining á hvað er frétt og hvað er ekki frétt virðist stundum mjög óljós. Fréttatímar virðast oft fylltir upp af einhverju sem hefur ekki neitt einasta fréttagildi. Manni dettur stundum í hug að fréttastefna DV sáluga (Finniði einhverjar fokking fréttir) sé víðar við gildi en á þeim bænum.

Hvaða fréttagildi er í því að einhver alþingismaður segir að trúverðugleiki Ingimundar Sigurpálssonar stjórnarformanns SA hafi rýrnað við dóminn sem féll á Eimskip sáluga? Ekki kýs alþingismaðurinn í stjórn SA? Honum kemur þetta í raun ekki meir við en mér og mitt álit á þessu skiptir ekki nokkru máli í þessu sambandi. Ef eigendur stærstu fyrirtækjanna sem standa að SA hefðu tjáð sig í þessa átt þá var það frétt en það er alger ekki frétt þótt einhver alþingismaður sé eitthvað að blása um það sem honum kemur ekki við.

Það var skilgreind frétt í útvarpinu fyrir skömmu að einhver sjálfskipaður álitsgjafi sagði það skoðun sína að forsetinn ætti ekki að sitja fjögur kjörtímabil. Hvaða frétt er þetta? Væri það frétt er ég hringdi niður í útvarp og segði það skoðun mína að forsetinn ætti að sita a.m.k. fjögur kjörtímabil. Ég held ekki. Það er hins vegar frétt ef forsætisráðherra teldi það skoðun sína að þrjú kjörtímabil væru nóg og hann teldi þingmeirihluta fyrir lagasetningu í þá veru. Það væri líka frétt ef undirskriftasöfnun væri hafin fyrir einhverju í þessa átt.

Í kvöld var í sjónvarpinu enn ein fréttin um hvert er kynjahlutfallið er í fyrirtækjum á verðbréfaþingi. Nú voru Glitnir og Kaupþing tekin sérstaklega fyrir. Það er greinilegt að það á að staglast á þessu þar til veiklunda stjórnmálamenn láta undan og setja lög um kynjahlutfall í fyrirtækjum á verðbréfaþingi, nokkuð sem öðrum en hluthöfum kemur ekki hið minnsta við. Hvað ætli sé stórt hlutfall karlmanna sem situr ekki í neinu einustu stjórn fyrirtækis eða opinberrar stofnunar? Ætli það séu ekki rúm 95%. Af hverju er aldrei talað um þessa hraklega stöðu mikils meirihluta karlmanna hvað varðar stjórnarsetu í samfélaginu. Ekki sit ég í neinni einustu stjórn fyrirtækis en tel mig hins vera ágætlega hæfan til þess á ýmsan hátt!! Greinilega eru þeir sem hagsmuna hafa að gæta og skipa eða kjósa í stjórnir fyrirtækja í landinu á annari skoðun. Á ég að fara að berjast fyrir því að það verði sett lög um að ég og aðrir karlar sem ekki eru í neinni stjórn verði kosnir í stjórn einhversstaðar. Ég geri ráð fyrir því að ég væri álitinn endanlega vitlaus ef ég færi að hreyfa þessu í fullri alvöru. Kannski yrði ég að endingu settur í einhverja skítastjórn einhversstaðar af tómri aumingjagæsku svo ég myndi hætta að grenja.

Ef ég á hinn bóginn hefði mikinn áhuga á að komast í stjórn einhversstaðar þá ætti ég að byrja á að setja mig inn í rekstur viðkomandi fyrirtækis, leita að veikleikum í ákvörðunum núverandi stjórnarmanna, flytja mál mitt í ræðu og riti og leggja til ný og betri vinnubrögð sem stefndu til úrbóta og sannfæra þannig hlutaðeigandi hagsmunaaðila um að ég væri betur fallinn en aðrir til að breyta um stefnu og framfylgja nýrri stefnu. Af hverju geta þær konur sem hafa brennandi löngun til að komast í stjórnir stórra fyrirtækja ekki unnið svona? Ég hlýt að draga þá ályktun að þær konur sem eru að berjast fyrir ákveðnum kynjahlutföllum í stjórnum fyrirtækja á verðbráfaþingi telji að konur hvorki nenni eða vilji berjast fyrir því á eigin spýtur að komast í þessar stjórnir og því verði að leggja spýtu yfir lækinn og setja lög. Það er svo óumræðilega einfalt, þægilegt og átakalaust. Engu að síður er Noregur eina landið í heiminum sem hefur lagt út á þessa vitlausu braut. Á það minnast fréttamenn aldrei og því er rétt að draga það fram hvar sem mögulegt er.

þriðjudagur, janúar 01, 2008

Kátir karlar í Base Camp

Gamlárskvöld og áramót liðu hjá í góðum gír. Fjölskyldan kom saman hér í Rauðagerðinu eins og oft áður og allt fór fram eftir ritúalinu. Maður er eiginlega mest ánægður með það í dag hvað unglingarnir sem eru óðum að verða fullorðið fólk hafa enn nennu og ánægju af að deila svona stundum með eldri kynslóðunum og ekki síður hvað þau eru öll full af jafnvægi og rólegheitum. Veðrið var betra en áhorfðist svo það var haldin dálítil flugeldaveisla á planinu eins og víðar. Það er hins vegar eins með þetta og svo margt annað, unglingarnir eru óðum að vaxa upp úr hasanum og það eru fyrst og fremst þau yngstu sem enn hamast á fullu.

Það plagar mig ekki per ce þótt það sé auglýsing inni í áramótaskaupinu en það mætti sýna smá metnað og ferska hugsun þegar verið er að þróa svona hluti. Auglýsingin sem slík var hundleiðinleg og ófrumleg og hefur örugglega ekki verið fyrirtækinu til framdráttar. Auglýsing á áramótaskaupi þarf bæði að vera fyndin og frumleg, annars er hún verri en engin auglýsing fyrir viðkomandi fyrirtæki.

Áramótaskaupið sem slíkt var hefðbundið miðjumoð og fátt sem situr eftir. Mér finnst eiginlega með ólíkindum að að sé ekki hægt að setja saman sæmilega revíu þegar stjórnendur þess hafa til ráðstöfunar tugi milljóna og fleiri mánuða undirbúning.

Ég fór snemma út í morgun og tók gamlárshlaupið degi of seint. Það er fínt að fríska sig upp í morgunkulinu. Ég hlusta ekki lengur á áramótaræðu forsetans en sé á mbl.is að hann ætlar að gefa kost á sér áfram í næstu kosningum. Það skiptir mig ekki öllu máli en gaman væri ef fleiri gæfu kost á sér svo hægt verði að kjósa. Það var hins vegar gaman að horfa á myndina "Gamla brýnið" sem fjallaði um Pétur í Ófeigsfirði. Pétur er einn af þessum öðlingum sem er verðmæti að hafa kynnst. Ég hitti Pétur fyrst í ágúst 1976 þegar við komum nokkrir félagar norðan af Ströndum eftir eftirminnilega ferð frá Hesteyri. "Hér komu hinsvegar um árið nokkrir bændur á gúmmístígvélum og fóru hratt yfir" heyrði ég Pétur lýsa komu okkar í útvarpinu nokkrum árum síðar þegar hann hafði verið að lýsa því hve göngufólk væri oft aðframkomið þegar það kæmi að garði í Ófeigsfirði norðan af Ströndum þótt það væri klætt gönguskóm af bestu gerð.

Árið í fyrra var mitt besta ár til hlaupa frá upphafi og getur maður ekki verið annað en þakklátur fyrir að hafa getu til að takast á við ýmis fullorðin verkefni á þessu sviði. Ég hef aldrei hlaupið lengra en í fyrra og tekist á við álíka krefjandi verkefni enda þótt ég færi aldrei upp í eins langa hlaupamánuði eins og árið 2005 en síðasta ár var miklu jafnara. Ég tók útmánuðina sem æfingamánuði og notaði marsmaraþonið og Bostonmaraþonið sem part af því plani. Marsmaraþonið var félagshlaup sem endaði í svo mikilli snjókomu að maður átti í erfiðleikum með að halda brautinni undir það síðasta. Bostonmaraþonið var eftirminnilegt sökum þess að á leiðinni út í rásmarkið var ausandi rigning og hífandi rok sem setti hlaupið allt í óvissu. Veðurskilin gegnu hins vegar yfir skömmu fyrir hlaupið svo það fór hið besta fram. Það er alltaf gaman að taka þátt í þessum stóru borgarhlaupum. Ég á eftir að taka Berlín, Chicago og New York til að hafa náð fimmunni. Síðan eru mörg önnur sem skemmtilegt væri að takast á við.

Í maí tókst ég á við nýja raun sem var 24 tíma hlaup á Borgundarhólmi. Það gekk mjög vel og náði ég að skrefa rúma 197 km á tilsettum tíma og náði verðlaunasæti í hlaupinu. Þessi árangur setur mig í ca 220 sæti á heimslistanum af þeim tæplega 2100sem hlupu 24 tíma hlaup á síðasta ári. Síðast þegar ég vissi var þetta 16. besti árangur á Norðurlöndum á árinu.
Laugavegurinn var mjög skemmtilegur eins og æfinlega og náði ég að ljúka honum á um 6.30 klst. Nú þarf maður hins vegar að vera undir 6 klst ef maður vill komast í fullorðinna manna tölu þar svo það er enn verkefni að vinna á þessum vettvangi. Í þetta sinn var Laugavegurinn partur af æfingaáætlun fyrir ATC keppnina á Grænlandi sem ég hoppaði inn í með mánaðar fyrirvara. Það var mjög skemmtileg reynsla og vildi ég ekki hafa misst af henni. Að sögn er ég nokkuð elstur þeirra sem hafa lokið þessari miklu keppni og held ég að þeir félagar mínir frá Íslandi Trausti, Eddi og Pétur komi þar næstir en þeir urðu allir fimmtugir á árinu. Þetta sýnir mér að dagatalið segir ekki allt í þessu samhengi. Við vorum þarna m.a. að keppa við hörkufólk með mikla reynslu sem hafði æft skipulega fyrir keppnina mánuðum saman sem hópur. Við hittumst sumir fyrst á flugvellinum þegar flogið var til Grænlands. Það er sem sagt hægt að gera ýmislegt betur í þessu samhengi. Ég hafði aldrei komið til Grænlands áður en það var skemmtileg upplifun.
Ég rúllaði Reykjavíkurmaraþon í rólegheitum í frábæru veðri og lauk því á 3.48 sem var eftir planinu. Það átti ekki að vera átakahlaup heldur æfingahlaup og gekk upp sem slíkt.
Sex tima hlaupið var haldið í kalsarigningu miðjan september. Við tókum upp þá nýbreytni að hafa einnig 3ja tíma hlaup og mæltist það vel fyrir. Steinn setti glæsilegt íslandsmet í sex tíma hlaupinu og var þetta ný upplifun fyrir þann mikla jaxl sem er til allra hluta líklegur á komandi árum. Ég lét mér nægja að hlaupa 3ja tíma hlaupið því þetta var síðasta langa æfingin fyrir Spartathlon sem var haldið í lok september.

Spartathlon er hlaupið milli Aþenu og Spörtu í Grikklandi og er lengsta hlaup í heimi sem er hlaupið frá einum stað til annars. Hitinn var mikill þá daga sem hlaupið fór fram eða 34oC - 37oC. Það reyndist mörgum mjög erfitt og meðal annars undirrituðum. Ég tók þá ákvörðun að hætta eftir um 20 klst og 150 km eftir að hafa barist við brennandi sólarhita, orkuskort, uppsölur, blöðrur og skafsár. Ég sá að ég myndi ekki hafa það af í gegnum seinni daginn undir tilskyldum tímamörkum og sté í rútuna um kl. 3.00 um nóttina. Ég var hins vegar ánægður með margt og er síðan miklu betur undir það búinn að takast á við hlaupið næsta haust en það verður stóra markmiðið á þessu ári. Það sem ég var ánæggðastur með var að ég var ekki útkeyrður eða orkulaus þear ég hætti. Þrekið var til staðar en aðstæðurnar of brutal til að ná undirtökum í hlaupinu. Nú er markvisst níu mánaða prógram framundan sem saman stendur af hlaupaæfingum, þrekæfingum, keppnum, fjallgöngum og saunasetum. Miðað við allt og allt er það fyrst og fremst andlegi þátturinn sem ræður úrslitum um hvort þetta tekst eða ekki.
Haustmaraþonið átti að vera létt rennsli en það minnti mann óþyrmilega á að maður á alltaf að bera virðingu fyrir maraþoni. Ég hætti í hlaupinu þegar það var hálfnað og hundaðist heim stirður og orkulaus.

Fyrir utan hin hefðbundnu maraþon ætla ég að keppa í 24 tíma hlaupi á Borgundarholmi í maí. Kannski verður langt hlaup á döfinni um páskana, það kemur í ljós. Í sumar verður ekkert á döfinni annað en Laugavegurinn því ég ætla ekki að láta neitt trufla undirbúninginn undir Spartathlon. Maður má ekki taka úr sér hungrið með því að fara í of mörg verkefni þegar svo mikið er undir.

Ég hef í eitt og hálft ár farið eftir leiðarvísi Ásgeirs fjallgöngukappa og Ironmanns hvsð mataræðið varðar. Maturinn samanstendur fyrst og fremst af kjöti, fiski, grænmeti og ávöxtum. Morgunmaturinn er skyrhræringssteypa með hunangi, rúsinum og kanil sem bætiefni. Sætindi, kex, kökur, kolvetnaóhóf og ruslfæði heyrir sögunni til. Síðasta hálfa árið hef ég einnig borðað reglulega vítamín frá Heilsu samkvæmt ráðleggingum og reynslu Ásgeirs. Frá því í haust hef ég farið yfir í að nota Herbalive próteinduft sem grunn fyrir og eftir æfingar. Samkvæmt þeirri reynslu sem ég hef þegar fengið er hún mjög jákvæð og það verður haldið áfram á þeirri braut. Að mínu mati þá er fæðan undirstaða undir frekari árangur til að byggja upp þrek og úthald. Sérstaklega á það við þegar maður er ekki neitt unglamb lengur og hefur upp á minni náttúrulegan forða að hlaupa.

Eitt af kostunum við að taka þátt í alþjóðlegum hlaupum er að maður kynnist hlaupurum héðan og þaðan úr heiminum. Af þeim má mikið læra og safna þannig í sarpinn til að þoka sér áfram. Ég get ekki verið annað en þakklátur fyrir að hafa getu og möguleika til að verða hluti af þessu samfélagi einstaklinga sem leggja stund á íþrótt sem hefur þá sérstöðu að hún er ekki á allra færi. Í upphafi voru keppendur ultrahlaupa taldir hálfgerðir vitleysingar að vera að hlaupa langt þegar hægt er að hlaupa stutt en það er að breytast smám saman.

Ég sé ekki annað en að það sé allt í sómanum nú í upphafi árs með skrokkinn og andann sem gefur vonir um að ýmislegt geti gerst ef vel er haldið á spilunum 7 - 9 - 13.