sunnudagur, júní 29, 2008

Komið að Robinson Flat eftir ca 6 1/2 tíma

Fór frekar seint út í morgun. Hélt vestur eftir en sneri við á Eiðistorginu. Þar var orðið kalt og hvasst og ég nennti ekki að berjast fyrir golfvöllinn í tætingnum. Á leiðinni til baka hitti ég slitur af Hlaupasamtökum lýðveldisins sem var að hlaupa í sig heilsu og þrótt. Félagar í samtökunum höfðu fagnað fimmtíu ára afmæli ritara samtakanna kvöldið áður með virkri þátttöku í afmælishaldinu. Veisluhaldsins sást merki hjá þeim sem mættu til hlaupa. Þeir sögðu illgjarnar sögur og Jörundur sleit upp lúpínu. Afmælisbarnið sást hins vegar hvergi, af augljósum ástæðum sögðu félagar hans og gestir kvöldið áður.

Ég fór nokkra hringi í Elliðaárdalnum til að ná magni dagsins. Þar er alltaf logn.

Granollersmótinu lauk í dag. Víkingar léku síðasta leikinn í milliriðlum í morgunsárið og þurftu að lágmarki að ná jafntefli í þeim leik. Það tókst og þá voru þeir komnir í undanúrslit. Þar léku þeir við lið heimamanna, Granollers. Leikurinn var jafn og lauk með jafntefli en Víkingar voru sterkari í framlengingu. Dómarar leiksins þráðu svo ákaft að sjá sína menn í úrslitum að eftirlitsdómari leiksins þurfti að rifja upp með þeim helstu atriði í dómgæslu í handknattleik áður en framlenging hófst. Í úrslitum mótsins var leikið við Dukla Prag frá Tékklandi. Fyrri hálfleikur var jafn en í seinni hálfleik sýndu Víkingar að þeir voru komnir til leiks og sigruðu af öryggi. Þeir unnu sem sagt í elsta flokki karla á mótinu og er það árangur sem maður er gríðarlega stoltur af. Ég fór með þá á áþekk mót í fyrra og hitteðfyrra. Maður fann hvernig þeim óx ásmegin með aukinni reynslu og fengu aukna trú á eigin getu. Í vor hafa þeir æft vel og samviskusamlega og búið sig undir mótið af fremstu getu. Þegar ég hitti þá á föstudagskvöldið var það síðasta sem ég sagði: "Og svo vinnið þið bara helvítis mótið. Þið vitið að þið getið það." Þetta var nú frekar sagt í bríaríi en af sannfæringu en sama er, ef maður trúir ekki á að maður geti náð settu marki þá kemst maður alveg örugglega ekki á leiðarenda. Ef maður trúir því þá er alltaf von.
Þetta er besti árangur sem hefur náðst hjá handboltaliði frá Víkinni í áraraðir. Granollersmótið er sagt ágætlega sterkt af þeim sem til þekkja svo þetta er alvöru árangur.

Ég ætlaði að skoða stöðuna í Western States í kvöld en þar átti að hlaupa í gær og dag. Þá sá ég mér til mikillar hrellingar að hlaupinu hafði verið aflýst á síðustu stundu eða á föstudaginn. Ástæða þess eru skógareldar sem geysa í nágrenni hlaupaleiðarinnar. Af þeim er bæði mikil loftmengun og einnig er öryggi hlauparanna ekki tryggt. Þetta er í fyrsta sinn í 35 ára sögu hlaupsins að því hefur verið aflýst. Sorglegt. Hugsa sér að ef maður hefði verið kominn til Californíu og upp í fjöllin við Squaw Walley. Síðan hefði allt verið blásið af.

Reykholt í Borgarfirði

Var búinn að mæla mér mót með Jóa við brúna um kl. 8.00 í morgun. Varð heldur seinn fyrir én Jói er þolimóður og var búinn að hlaupa dálítið fram og til baka í Fossvoginum þegar ég mætti. Við tókum kúrsinn fyrir Kársnes og suður á við í garranum. Fórum suður að Vífilsstöðum og upp í hálönd Reykjavíkur. Á heimleiðinni fengum við vindinn í fangið en þá jukum við hraðann og lágum undir 4 mín á tímabili í góðum mótvindi. Þetta urðu því bæði brekkuæfingar og hraðaæfingar. Það lágu þó ekki meir en 22 km hjá mér eftir daginn.

Þar sem maður á nóg af flestu þá fer maður sjaldan út í búð nema til að kaupa í matinn og ef bílinn vantar varahlut. Þó fer maður út í búð af hreinni þörf til að kaupa tvennt þegar það birtist. Hið fyrra er diskur með Megasi þegar þeir koma út. Maður frestar því aldrei að kaupa diskinn með meistaranum. Það eru hins vegar mörg ár síðan ég hef keypt disk með Buba. Hitt eru ferðabækur eftir Pál Ásgeir. Hann hefur ritað fjölda bóka um ferðalög og leiðarlýsingar hér innanlands af fágættri smekkvísi og yfirgripsmikilli þekkingu. Hann gjörþekkir landið og söguna og kemur því frá sér í fræðandi og grípandi texta. Í fyrra ók hann með konu sinni vikum saman um byggðir landsins, tók myndir, talaði við fólk og gerði drög að staðháttalýsingu. Afraksturinn er að finna í bókinni 101 Ísland, Áfangastaðir í alfaraleið. Ég gerði mér ferð í Kringluna í dag til að sækja bókina. Það var vel þess virði. Mæli með henni við fólk sem hefur gaman af því að ferðast um landið, skoða áhugaverða staði og fræðast um söguna. Það er margt sem fer fram hjá manni vegna ókunnugleika. Það er gott að hafa þessa bók í handraðanum í slíkum ferðum.

föstudagur, júní 27, 2008

Við Bjarnanes á Rauðasandi

Fórum í gönguferð í gærkvöldi með eldri og yngri Sveini upp í Laufskörð. Ég hafði aldrei komið þangað áður svo það var kominn tími á það. Ég rataði ekki alveg leiðina upp að göngubrúnni svo vð lögðum bílnum niðri við bæinn og gengum uppeftir. Á leiðinni lentum við inni í tveimur graðhestagirðingum en það kom ekki að sök. Verst var að klifra yfir girðingarnar, þær voru yfirleitt vel girtar og háar. Það er stinningslabb upp á brún, svona svipað eins og upp á brún við Þverfellshornið. Við vorum það seint fyrir að við fórum ekki túrinn eftir Móskarðshnjúkunum heldur gengum beint niður aftur. Komum heim um 1.30 um nóttina. Sveinn eldri var léttur til gangs enda þótt hann sé orðinn 76 ára gamall. Hann lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna.

Fór á landsleikinn í Laugardalnum en sá reyndar bara fyrri hálfleikinn. Það var klassamunur á liðunum og íslensku stelpurnar höfðu verðskuldaða forystu í hálfleik 3 - 0. Fjögur mörk komu til viðbótar áður en yfir lauk. Árangur íslenska liðsins hefur verið mjög góður í þessari undankeppni og hafa stelpurnar sigrað landslið frá fjölmennum þjóðum og standa jafnfætis franska liðinu sem er í hópi þeirra bestu í Evrópu. Maður getur velt fyrir sér hvers vegna það sé. Nú á svona smáþjóð að öllu jöfnu ekki að vera í fremstu víglínu í hópíþrótt þegar tekið er mið af því úrvali eiinstaklinga sem þjóðin býr yfir. Ástæðan er skannski ekki síður sú að hérlendis eru menn nokkuð á undan mörgum öðrum þjóðum að byggja upp kvennaknattspyrnu. Knattspyrnan hefur áratugum saman verið dæmigerð karlaíþrótt en það viðhorf er að breytast gríðarlega. Að flestu leyti hafa stelpurnar sömu möguleika að þroska sig í íþróttinni eins og strákarnir. Það er boðið upp á þjálfun fyrir stelpur frá unga aldri til jafns við strákana. Mót fyrir stelpur eru haldin út um allar koppagrundir eins og fyrir strákana. Þær fara í keppnisferðir erlendis eins og þeir. Það eru gerðar kröfur um álíka fjölda æfingatíma fyrir þær eins og strákana og jafngóða þjálfara. Allt er þetta eðlilegur hlutur á þeim tímum þegar gerðar eru kröfur um að hæfileikar allra fái að njóta sín. Það er því að mörguleyti dæmigert fyrir stöðu kynjanna hérlendis að kvennalandsliðið í fótbolta skuli vera í hópi þeirra fremstu í Evrópu á meðan karlalandsliðið skuli vera í 100 sæti á heimslistanum (kannsi á þeim stað sem eðlilegt er að það sé). Kynjafræðingar mættu beina svolítilli athygli að þessu í stað þess að vera sífellt að hamra á því að hér sé allt á steinaldarstigi í jafnréttismálum.

Veðrið er alveg svakalega gott þessa dagana og fínt til að hlaupa. Það er sama hvenær dagsins það er, að morgni, í hádeginu eða á kvöldin. Fór 10 km í Elliðaárdalnum í kvöld. Það gerist ekki betra.

Jói og félagar spiluðu fyrstu tvo leikina á Granollersmótinu í dag. Fyrri leikinn unnu þeir nokkuð öruggglega. Síðan spiluðu þeir við lið heimamanna og unnu þá með eins marks mun. Spilað var á malbiki sem strikaður hafði verið á handboltavöllur. Okkar strákar höfðu aldrei spilað handbolta við slíkar aðstæður og hvað þá með brennandi sól í andlitið ofan í kaupið. Granollers er um 80.000 manna borg þannig að bakland heimamanna er töluvert. Sigurinn var því mjög sætur. Síðasti leikurinn í riðlinum verður spilaður á morgun.

„Geysir Green fá sekt.“ las maður í einu dagblaðanna. Já fengu félagarnir Geysir og Green sekt fyrir eitthvað. Það væri hægt að segja: „Gög og Gokke fá sekt“ en Geysir Green fékk sekt eða var sektað.
„Borholan verður 1800 metra löng“ Þetta stóð í textavarpi sjónvarpsins. Ekki í fyrsta sinn sem svona orðaklám sést í fjölmiðlum. Skilja menn ekki að það sem fer niður í jörðina er djúpt, það sem liggur á jörðinni er langt en það sem stendur upp í loftið er hátt. Ef menn skilja ekki muninn á þessu verður innan tíðar farið að segja að holan sé 10 metra há, vegurinn sé 100 km djúpur og blokkin sé 40 metra löng.

þriðjudagur, júní 24, 2008

Lómur í friðlandinu

Hvað ætli þessi þróun geti haldið lengi áfram sem hefur verið að gerast síðustu mánuði? Gengi krónunnar fellur og fellur. Fyrir ári síðan var Evran í rúmum 80 krónum. Nú er hún í 135 krónum. Það er nær 60% verðrýrnun. Síðan bætast aðrir hlutir ofan á eins og gríðarleg verðhækkun á olíu. Vaxtastig í landinu er gríðarhátt. Bankarnir eru ófærir um að veita atvinnulífinu eðlilega lánafyrirgreiðslu. Þetta getur ekki leitt til annars en óðaverðbólgu og stórfellds atvinnuleysis ef ekkert breytist. Enda þótt neysla minnki stórlega og þannig dragist fjármagn í umferð gríðarlega saman þá hefur það ekki tilætluð áhrif vegna stöðu krónunnar. Undir öllum eðlilegum kringumstæðum hefði slíkur samdráttur í fjármagni í umferð átt að hafa í för með sér hraða lækkun verðbólgu en hvað gerist þegar staða krónunnar er eins og hún er. Það er ekki hægt að búast við öðru en þessi gríðarlega veiking krónunnar komi með fullum þunga út í verðlagið. Ég fór út í banka í gærmorgun að kaupa gjaldeyri fyrir strákana í 2. fl. Víkings sem voru að leggja af stað í keppnisferð til Spánar í eftirmiðdaginn. Þá kostaði Evran tæpar 126 krónur. Þegar þeir flugu af stað var Evran komin í 133 krónur. Kaupgeta krónunnar hefur rýrnað svo svakalega að það er orðið mjög dýrt að fara erlendis.

Ég greip niður í Þjóðhagsspá fyrir árið í ár sem gefin var út á sl. hausti af Glitni. Þeir spáðu því að gengisvísitalan væri að jafnaði um 125 á árinu. Nú er hún í ca 168. Þeir spáðu því að USD færi hæst í ca 70 krónur og Evran í 90 krónur um áramótin næstu. Nú er USD 84 krónur og Evran 133. Hvað á maður að halda?

Ég get ekki annað sagt en að maður sé orðinn hálf hræddur um þessa þróun. Bankarnir eru orðnir svo stórir að ríkið getur ekki baktryggt þá. Því er skuldatryggingarálag þeirra svo hátt sem hefur í för með sér gríðarháa vexti og erfitt aðgengi að fjármagni. Gjaldeyrisvarasjóðurinn er of lítill. Það veikir krónuna. Það hljóta að vera takmörk fyrir því hvað þetta getur haldið lengi áfram í þessa átt.

Jói fór til Spánar í gær ásamt félögum sínum hjá Víkingi í keppnisferð til Granollers sem er rétt fyrir utan Barcelona. Þetta er þriðja mótið sem þeir fara á í þessum dúr. Þeim hefur vaxið ásmegin og farnir að skynja betur hvar þeir standa í samanburði við erlenda jafnaldra sína. Í fyrra og núna hef ég séð um að græja allt sem þarf að gera í krngum ferðina, flug, hótel, samskipti við mótshaldara o.s.frv. Ég veit ekki alveg hvað þetta hefur sparað okkur í ár en í fyrra lækkaði það að gera hlutina sjálfur kostnaðinn á strák um ca 35.000 krónur eða um hálfa milljón á hópinn allann. Hálfblanka skólastráka munar um minna. Ég sé ekki ástæðu til að vera að kaupa þessa vinnu af ferðaskrifstofum þegar maður getur sem best gert þetta sjálfur að minnsta kosti jafnvel.

María fer svo í fyrramálið á frjálsíþróttamót til Svíþjóðar með félögum sínum úr Ármanni og Fjölni. Tvíburarnir nágrannar okkar fara einnig þannig að það er mikil tilhlökkun og spenningur í húsinu. Þetta er frumraun þeirra á frjálsíþróttamóti en í fyrra fóru þær á Gothia cup í fótbolta sem var mjög gaman.

Það hlýtur að hafa verið frábært að taka þátt í Miðnæturhlaupinu í glrkvöldi. Veðrið eins og best var á kosið. Ég er að nota kvöldin til að klára að mála húsið þannig að maður verður að forgangsraða af og til. Maður málar aftur á móti ekki snemma á morgnana svo þá get ég hlaupið.

Tjaldur vestur á Seltjarnarnesi

sunnudagur, júní 22, 2008

Góð hlaupahelgi í frábæru veðri. Hitti Jóa í gær á níunda tímanum og fórum rúma 30 km. Trausti fór með okkur vestur fyrir flugvöll. Víð hlupum út fyrir golfvöllinn á Nesinu við litla hrifningu kríanna sem ruku í okkur í illsku því þeim hefur mistekist að koma golfurunum burt af vellinum. Það væri kannski hægt að hrekja okkur burt. Ég fór vestur á golfvöllinn síðar um daginn að taka myndir og þá voru þær enn vitlausari svo mér þótti nóg um og er ég þó ekki smeykur við kríur lengur. Það er af sem áður var. Á föstudagskvöldið fór ég austur í Friðlandið í Flóanum að taka myndir af fuglunum sem þar eru. Þetta er að æfast en maður þarf að ná góðri skerpu til að vera sáttur.
Í morgun fór ég sömu leið fyrir golfvöllinn á nesinnu og fór síðan hring í Elliðaárdalnum til að ná 30 mk. Þetta urðu góðir 30 km hvorn dag í frábæru veðri eins og best verður á kosið.

Víkingur spilaði við Þór í dag og vann góðan sigur. Ástandið í Víkinni er orðið svolítið tens yfir því að liðið hefur spilað frekar illa í vor og meðal annars tapað gegn Haukum og Leikni.Vonandi hefur leikurinn í dag verði ákveðinn viðsnúningur á heldur döpru tímabili. Berserkir sóttu varalið KR í gær og unnu stórsigur. Þeir eru á mikilli siglingu og verður gaman að sjá hvernig sumarið þróast. Stofnun Berserkja er eitt af því besta sem hefur gerst hjá Víkingu um nokkurn tíma því þar eru um 30 strákar á fulli við æfingar og keppni, strákar sem annars væru hættir að spila eða komnir í önnur lið. Sveinn er farinn að æfa með þeim en hann er enn skráður í Gróttu og verður að bíða eftir félagaskiptaglugganum um miðjan júlí.

fimmtudagur, júní 19, 2008

Lóuþræll í Friðlandi í Flóa

Þessa dagana fer ég yfir leitt tvisvar á dag út að hlaupa. Allt er í eins fínu lagi og getur verið. Enda þótt hálfsmánaðar hvíld sé nokkuð löng þá held ég að það sé skynsamlegt eftir mjög löng hlaup. Það er minni hætta á tognunum eða öðrum meiðslum ef fæturnir fá að jafna sig almennilega. Fyrsta hlaup dagsins er yfirleitt á sjöunda tímanum á morgnana. Það er fínn tími í svona góðu veðri. Maður er yfirleitt vaknaður upp úr kl. 6.00 og þá er alveg eins gott að hafa sig út eins og að liggja í tilgangsleysi í rúminu. Síðan fer ég út í hádeginu ef ég mögulega get. Annars reyni ég að fara á kvöldin. Fór á Esjuna að kvöldi 17. júní. Sveinn kom með mér. Það var nokkur mótvindur svo við gengum rösklega upp og skokkuðum svo niður. Fann ekki fyrir neinu í fótunum en lærin mundu aðeins eftir fyrstu ferðinni í dag eða tvo um daginn. Þarf að sinna Esjunni vel fram að Laugavegi.

Ég skil ekki alveg hvað er verið að atast í umhverfisráðherra út af því að farga þurfti ísbjörnunum sem gengu á land. N.B. maður tekur skepnu ekki af lífi, skepnum er fargað, lógað eða slátrað. Svo segir maður ekki "björnsins" eins og margtuggið var í grein í Fréttablaðinu nýlega heldur "bjarnarins". éh hélt að það væri gerð krafa um lágmarks íslenskukunnáttu til að fá að skrifa í blöð. Prófarkalestur virðist heyra sögunni til. Hvað átti annað að gera en að lóga dýrinu á Þverárhlíðarfjalli? Lögreglan gerir þau mistök að loka ekki veginum. Því var allt orðið fullt af fólki þarna á svæðinu og menn skoppandi upp um allar hlíðar með myndavélar eins og þetta væri í Tívólí. Ekkert annað að gera en að lóga skepnunni. Hins vegar átti ekki að leyfa einhverjar myndatökur með byssumenn við dýrið. Það var smekklaust. Leikurinn var svo ójafn. Fyrir norðan reyndu menn að standa faglegar að verki en dæmið gekk ekki upp. Það er varla að búast við að ísbjörn sitji bara og horfi á bílinn þar til hann er kominn í 30 metra fjarlægð. Því var ekkert annað að gera en að skjóta hann. Vafalaust er best að gera þetta úr þyrlu eins óg íslendingurinn sem vinnur í Kanada við ísbjarnaveiðar sagí í útvarpinu í kvöld. Ég skyldi hins vegar ekki alveg hvaða erindi umhverfisráðherra átti norður. Þetta var orðið hálfgert skúespil. Kannski næsta sena verði á Kili samvkæmt fréttum kvöldsins!!!

þriðjudagur, júní 17, 2008

Sérkennilegt kaktusahús í Calella á Spáni

Gleðilega þjóðhátíð. Í dag er 17. júní ....og fólkið í miðbænum er alltaf að aukast... eins og sagt var í ríkisútvarpinu áðan.

Það er töluvert mál að það skuli vera kominn annar ísbjörn til landsins einungis tveimur vikum eftir að hinn fyrri var skotinn við Þverárhlíðarfjallsveg. Ég hef engar sérstakar áhyggjur af örlögum ísbjarnarins nema að þeg held að það væri mannúðlegra að skjóta hann en að senda kvikindið í dýragarð. Mér finnst dýragarðar vera á margan hátt ónáttúruleg og ógeðsleg fyrirbrigði. Það er kannski allt í lagi að hafa fiðrildi, litla apaketti og slöngur sem sofa því sem næst alla ævina í dýragarði. Mér finnst aftur á móti ömurlegt að horfa á stór villt dýr í dýragörðum. Þau vafra þar um friðlaus, oft lokuð úti í hitanum og hafa það hlutverk eitt að láta horfa á sig. Dýragarðar höfðu einhvern tilgang fyrir svona 100 árum síðan þegar fæstir höfðu séð þessi framandi dýr en nú er öldin önnur. Það er hægt að nálgast það á svo marga aðra vegu að sjá svona dýr en að horfa á þau innilokuð í dýrafangelsi.

Það að annar ísbjörn sé kominn til landsins svo skömmu eftir hinn fyrri hlýtur að kalla á stóraukið bjarndýraeftirlit með norðvesturhluta landsins á þessum árstíma. Fólk býr strjált norður á Ströndum og á annnesjum norðanlands. Gönguhópar fara senn að flykkjast norður á Hornstrandir. Veiðimenn halda norður á Skaga. Hestamenn í reiðtúra. Sumarhúsafólk til bústaða sinna. Menn mega ekki gleyma því, eins og manni virðist býsna margir gera, að ísbjörn er eitt stærsta og ógurlegasta rándýr jarðarinnar. Maðurinn er í augum hans gríðarlega fín bráð. Hægfara, varnarlaus og getur ekki stungið sér í sjóinn. Ætli það myndi ekki fara um vitringana, náttúruverndarsinnana og besservisserana ef ferðafólk væri drepið af soltnum ísbirni norður á Hornströndum. Skíra björninn Ófeig!! Maður hefur sjaldan heyrt aðra eins þvælu.

Það er allt í lagi að leika sér við svona björgunaraðgerðir yfir hásumarið eins og nú er verið að, sérstaklega þegar auðkýfingur nokkur vill kaupa sér goodvill með því að borga brúsann. Þetta er ágætt svo langt sem það nær. En aðstæður eru ekki alltaf svona þægilegar. Bjart allan sólarhringinn, skyggni ágætt og þægilegt að ferðast. Hvað ef það væri þoka og skyggni svona 100 metrar? Regla númer eitt á að vera í svona tilfellum að skjóta bjarndýr ef nokkrar minnstu líkur eru á að það geti týnst eða valdið verulegu tjóni. Ág sá bjarndýraskinn á flugvellinum í Kulusuk í fyrra. Björninn var skotinn á flugvallarsvæðinu fyrir að því mig minnir um 10 árum síðan. Það þótti minnisverður atburður. Í vetur var mjög harður vetur þarna á austurströndinni. Tveir ísbirnir voru skotnir inni í bæ í Kulusuk í vetur og aðrir tveir í Tassilaq (Angmassalik). Þeir voru komnir í ruslatunnur þegar sást til þeirra. Það datt ekki nokkrumm manni annað í hug en að draga fram "Gömlu löng" og láta vopnin tala og spurðu hvorki kóng né prest.

Grímunni var troðið upp á mann á föstudagskvöldið í ríkissjónvarpinu. Svo dugði ekki minna en að endursýna allt klabbið strax á laugardagsmorgni. Ég efa ekki að svona klúbbum finnst gaman að hittast, veita hvort öðru verðlaun og hrósa í þeirri von að fá hrós. Það er aftur á móti vandséð hvaða tilgang það hefur að hella þessu yfir landslýð sem og öðrum álíka samkomum. Þegar tveir kynnar hver á fætur öðrum sáu sig knúna til að þakka Baug fyrir aðkomu fyrirtækisins að árshátíðinni þá var mér nóg boðið og slökkti á sjónvarpinu.

Sunnlenskur hestur

mánudagur, júní 16, 2008

Hluti bréfs af Silfri Egils:

Í Fréttablaðinu í dag, bls. 2, segir upplýsingafulltrúi Eimskips að komið hafi í ljós í febrúar sl. að þessi kaup Eimskips á Innovit voru mistök en segir Eimskip hafa ákveðið að birta ekki upplýsingar um þessi mistök strax. Orðrétt segir hann:

“Unnið var að sölu ákveðinna eigna Innovate og viðræður hófust við væntanlega kaupendur. Til að verja fyrrnefnda hagsmuni, nýtti Eimskip sér ákvæði í lögum um verðbréfaviðskipti, sem gefur útgefanda mögulegt að fresta birtingu verðmótandi upplýsinga. Það voru miklir hagsmunir í húfi og ég tel að með frestingu á birtingu hafi okkur tekist að lágmarka afskrift vegna Innovate, sem annars hefði getað verið hærri. Hafi þessar upplýsingar verið birtar fyrr hefði það geta sett viðræður við hugsanlega kaupendur í uppnám og haft bein áhrif á verðmæti þeirra eigna,” segir hann. ”

Hvað á maðurinn við ? Var Eimskip að ljúga að þeim sem vildu kaupa eignir Innovit , þ.e. fela hversu illa statt félagið var í raun og veru ? það er augljóst að þessar upplýsingar hafa mikil verðmyndandi áhrif á gengi bréfa Eimskips og því ljóst að um leið og fjárfestar/hluthafar myndu frétta af þessum mistökum sem kosta félagið þúsundir milljónir að þá myndi gengið hrapa.

Sem er raunin þar sem gengi á bréfum Eimskips hefur lækkað um 25% á 5 dögum eftir að þessar fréttir um mistökin á Innovit komu í ljós:

Forstjórinn Baldur Guðnason veit auðvitað allt um vandræði Innovit í febrúar líkt og upplýsingafulltrúinn og aðrir fruminnherjar félagsins. Síðan líður mars mánuður og mestur hluti apríl mánaðar og alltaf koma vandræðin vegna Innovit sífellt betur í ljós..... og þá ákveður sá aðili sem mesta ábyrgð bar á kaupum Innovit að nýta sér sölurétt sinn á bréfum sínum í Eimskip, þ.e. forstjórinn selur bréf sín til Eimskips skv.samningi á genginu rúmlega 37 !!!

http://www.visir.is/article/20080404/VIDSKIPTI06/80404102/1205

Gengið á bréfum Eimskips í dag er um 14.4 !

FORSTJÓRINN SELUR ÞVÍ BRÉF SÍN Á UM 160% HÆRRA VERÐI Í APRÍL SL. ÞEGAR FLESTAR UPPLÝSINGAR VARÐANDI INNOVIT MISTÖKIN ERU KOMINN Í LJÓS.

NÚVERANDI HLUTHAFAR HINSVEGAR SITJA UPPI MEÐ ALGERT HRUN Á VERÐMÆTI BRÉFA SINNA OG ÞAÐ ERUM VIÐ HLUTHAFAR SEM VERÐUM AÐ GREIÐA FORSTJÓRANUM FYRIR BRÉFIN Á GENGINU 37 ÞAR SEM FÉLAGIÐ EIMSKIP KEYPTI BRÉFIN !

Af Visir.is:
Baldur Guðnason hefur verið áberandi í íslensku viðskiptalífi á umliðnum árum, en lítið hefur þó farið fyrir honum eftir að hann hætti sem forstjóri Eimskips fyrir skemmstu. Eins og fram kom í upphafi mánaðarins seldi Baldur Eimskipafélaginu bréf fyrir hálfan þriðja milljarð, en viðskiptin voru hluti af lokauppgjöri vegna starfsloka Baldurs hjá félaginu. Voru bréfin sölutryggð miðað við gengi á kaupdegi og þurfti Eimskip því að taka á sig tæplega 900 milljóna króna tap, en hlutabréf í Eimskip höfðu lækkað umtalsvert í millitíðinni, eins og margt annað á markaðnum. Vinir Baldurs hafa fengið að njóta þessa, því á dögunum tók forstjórinn fyrrverandi sig til og bauð 20-30 manna hópi í sannkallaða lúxusferð með einkaþotu á leik í ensku knattspyrnunni með öllu tilheyrandi.

Maður getur ekki annað en spurt sig hvaða andskotans rugl hefur verið í gangi þarna.

sunnudagur, júní 15, 2008

Sunnlenskt lamb

"Hann gat bara beðið" sagði mæt kona á fundinum. Svona hófst grein sem ég las í Mogganum á leiðinni frá Barcelona og birtist á miðsíðu blaðsins á föstudeginum 6. júní. Tilvísunin var í umræður á fjöldafundi kvenna á Bifröst nokkrum dögum áður þar sem meðal annars var fjallað um niðurstöður forkosninga demókrata í Bandaríkjunum. Þátttakendur í fundinum voru greinilega ósáttar við að þeirra fulltrúi, þingmaðurinn og fyrrverandi First Lady í Bandaríkjunum skyldi ekki bera sigur úr bítum en þurfa að sjá á eftri sigrinum í hendur Obama sem var að mestu óþekktur utan síns ríkis fyrir árí síðan eða svo. Viðbrögðin eru ekki þau að sætta sig við orðinn hlut heldur fer umræðan að snúast um að það eigi að taka upp leikreglurnar og breyta þeim þannig að fulltrúi sérstaks hagsmunahóps eigi að vera fulltrúi flokksins. Nú segja menn eitt og annað á fundum en þegar fyrrgreind ummæli eru opnunarsetning á grein sem birtist í miðsíðu Moggans, þá verður maður að gera ráð fyrir að djúpristan sé heldur meiri en eitthvað venjulegt blaður. Nú eru sjálfsagt fáir ef nokkrir frambjóðendur í prófkjöri í Bandaríkjunum sem hafa haft annað eins forskot fyrir það eins og Hillary Clinton. Hún hafði verið í sterkasta sviðsljósinu þar í landi í áraraðir, bæði sem eiginkona forseta, sem eiginkona fyrrverandi forseta, sem þingmaður og ég veit ekki hvað. Enginn frambjóðandi hafði fengið eins sterka og jákvæða umfjöllun í fjölmiðlum og eins sterkur halelújakór hafði ekki verið sunginn fyrir neinn annan frambjóðenda. Enda gerðu allir ráð fyrir að hún myndi strauja yfir meðframbjóðendur sína í prófkjöri flokksins og eiga greiða leið í forsetaframboð. Hvað gerðist svo? Þegar hún kom fyrir alvöru fram á sviðið í prófkjörum síðasta vetrar þá gerðist eitthvað. Fólkið vildi annan valkost. Einhver óþekktur Obama og hörundsdökkur í ofanálag átti miklu greiðari leið til fólksins og vann kosningarnar nokkuð örugglega. Hann var sá valkostur við frambjóðenda rebúblikana sem kjósendur demókrata vildu heldur sjá. Að mínu mati eru það miklu miklu stærri tíðindi að þeldökkur maður eigi raunverulegan möguleika á að vera kosinn forseti Bandaríkjanna en að fyrrverandi forsetafrú myndi ná þeirri stöðu. Það vilja hinsvegar fulltrúar harðsvíraðs hagsmúnahóps ekki viðurkenna. Að mati sumra þeirra þá á að breyta leikreglunum og breyta niðurstöðum sem fengnar eru á lýðræðislegan hátt svo þeirra vilji nái fram að ganga. Að mínu mati lýsir það mjög vel þeirri stöðu sem Morgunblaðið var komið í fyrir ritstjóraskipti af grein með svona skoðunum skuli hafa verið sett á miðsíðu blaðsins.

Í sama blaði var frétt sem skýrði frá mótmælum stéttleysingja í Indlandi. Hverju voru þeir aftur að mótmæla, stöðu sinni sem stéttleysingjar? Nei, þeir voru að mótmæla því að þeir fengju jafnstöðu við aðrar stéttir í samfélaginu. Með því að þeir væru komnir með sömu stöðu og aðrir í samfélaginu þá misstu þeir ákveðin forrréttindi sem þeir hafa haft og felast meðal annars í því að þeir hafa forgang í ákveðinn kvóta stöðugilda hjá opinberum stofnunum. Það er erfitt að bæði sleppa og halda í þessum málum.

Bessi, Jommi, Sveinn og Hössi glaðir á útskrifardegi

laugardagur, júní 14, 2008

Það var stór dagur í Rauðagerðinu í dag. Sveinn Friðrik var að útskrifast úr HÍ með BS í stærðfræði. Hann lauk náminu með sóma eins og við var að búast. Hann þurfti að mæta niður í Laugardalshöll um kl. 13.00 en við mættum kl. 13.30 og mátti ekki seinna vera því það var allt að fyllast. Útskrifaðir voru rúmlega 1000 nemendur og segir það sig sjálft að það er nokkuð handtak að gera það allt eftir kúnstarinnar reglum. Það var gaman að sjá félagahópinn samankominn við námslok en sumum hefur maður fylgst með í ein 15 ár meir og minna. Félagar Sveins frá því úr Réttó, Jommi og Hössi luku einnig námi í dag með miklu láði, báðir með ágætiseinkunn. Frá árunum í MR kom einnig góð viðbót í félagahópinn sem flestir luku námi í dag. Fínn dagur í frábæru veðri. Það vakti athygli mína að tannlæknadeildin með deildarforseta og allt útskrifaði einungis 6 nemendur en það er árlegur kvóti. Síðan eru aðrar deildir sem útskrifa á þriðja hundruð nemendur úr hinum ýmsu skorum. Ætli þetta sé einhver gömul hefð sem erfitt sé að brjóta upp að halda úti sérstakri deild í kringum tannlæknanámið en fella hana ekki undir t.d. læknadeildina? Háskólarektor flutti ræðu eftir útskriftina og ræddi ýmis mál, meðal annars um framþróun innan skólans. Prósentutölur um breytingar á ýmsum sviðum segja svo sem ekki mikið ef maður veit ekki fjöldann sem á bakvið stendur. Til viðbótar þarf maður að vita um hliðstæðar tölur úr öðrum álíka háskólum s.s. tíðni greinaskrifa í virt fræðirit til að geta dæmt um stöðu skólans á alþjóðavettvangi. Ég held að til skamms tíma hafi staða skólans ekki verið góð hvað þetta varðar en það stendur vonandi til bóta. Ég hef hins vegar alltaf efast um að það markmið að koma HÍ í hóp 100 bestu háskóla í heiminum sé raunhæft. Held meira að segja að það sé mjög langt frá því. Þegar fræðimaður við HÍ er búinn að fá Nóbelsverðlaun skulum við fara að ræða þetta markmið. Í Berkley háskólanum í Californíu eru Nóbelsverðlaunahafar þeir einu sem hafa merkt bílastæði svo dæmi sé nefnt.
Við fórum í kvöld að borða á "Við Tjörnina" með ömmunum og öfunum. Góður matur þar eins og ævinlega.

Fór Eiðistorgshring í morgun í góðu veðri. Fínt hlaup með ágætu álagi.

Víkingur spilaði við Leikni í dag. Úrslitin voru náttúrulega stórt kjaftshögg því Leiknir fór með sigur af hólmi, félag sem ekki hafði unnið leik í mótinu til þessa. Það er eitthvað mikið að í Víkinni enda þótt félagið sé hið eina í fyrstu deild með þjálfara í fullu starfi. Það er ekki nóg að gera eitthvað, það verður að gera réttu hlutina á réttan hátt.

Félagi Halldór lenti í hremmingum á fimmtudaginn. Hann varð fyrir því óhappi að lenda í árekstri á hjólinu í Fossvoginum. Hann rifbrotnaði, viðbeinsbrotnaði og annað lungað féll saman. Hjálmurinn mölbrotnaði sem segir manni hvað hefði gerst ef hann hefði verið hjálmlaus. Hinn hjólreiðamaðurinn rotaðist en slasaðist minna. Það birtist grein í Mogganum nýlega þar sem fjallað var um merkingar fyrir hjólreiðamenn á göngustígum í borginni og hve slæmar þær eru. Eins og flestir vita þá er merkt mjó ræma annars vegar á göngustígunum. Það er allt í lagi fyrir þá sem koma úr þeirri átt að það passar fyrir þá að hjóla á ræmunni hægra megin en hvað á sá að gera sem kemur úr gagnstæðri átt. Á hann að hjóla á ræmunni eða á hann að hjóla hins vegar á stígnum. Í dæmi Halldórs hefur sá sem kom á móti greinilega haldið að hann ætti að hjóla á hjólreiðamerktu ræmunni og þá gerast slysin þegar menn mætast og útsýni er takmarkað. Laugavegurinn er farinn í vaskinn hjá þeim hjónum en vonandi nær hann sér fljótt eftir þetta áfall. Þetta er ekki lengi að gerast.

Lómur með unga

Ég skrapp austur í Friðlandið í Flóa í fyrrakvöld. Ég hafði aldrei komið þangað áður en veðrið var svo gott að það bauð upp á svona skreppitúra. Olían er reyndar orðin svo dýr að maður veltur hlutunum fyrir sér áður en frið er í lengri ferðir. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Ég fór einungis um lítinn hluta Friðlandsins en sá mikið af fuglum. Ég hef aldrei séð svona mikið af lómi á einum stað, og allur var hann dauðspakur. Óðinshaninn sullaði við tærnar á manni. Gaman var að sjá lóminn þegar hann rauk upp og fór að stríða við nærstadda karla og sýna sig fyrir kellingunum. Ég tók dálítið af myndum en þarf að fara aftur því ég mátti vanda betur stillinguna á vélinni. Maður þarf að taka fuglamyndir á hámarkshraða því annars er hætta á að þær verði hreyfðar. Það er ekkert aman að þeim ef þær eru ekki í lagi.

Það var fundur í 100 km félaginu í gærkvöldi. Það var farið yfir framkvæmd 100 km hlaupsins á síðustu helgi. Í öllum aðalatriðum gekk það vel en eins og allta fþá eru ein og önnur atriði sem má fínesera betur. Einnig var ákeðið að halda svona hlaup á næsta ári. Þetta er komið til með að vera. Ég hef trú á að 100 km hlaupurum fjölgi verulaga hér á næstu árum. Góðir maraþonhlauparar sjá að þetta er alveg hægt og þáhalda þeim engin bönd. Við vorum fimm sem stofnuðum félagið fyrir fjórum árum. Nú eru félagsmen orðnir 25. Níu bættust við á helginni. Einnig fjölgar þeim jafnt og þett sem leggja enn lengri hlaup fyrir sig.

HK/Víkingur vann góðan sigur yfir Keflavík í Víkinni í gærkvöldi. Þær spiluðu góðan fótbolta og börðust á fullu. Sjálfstraustið var greinileg í lagi og það skilaði árangri. Þetta var fyrsti sigur þeirra í deildinni go þeir verða örugglega fleiri.

miðvikudagur, júní 11, 2008

Árið sem Ísbjarnarblús kom út var ég á Jóni Þórðarsyni

Mér er það enn í fersku minni hvílík tímamót það voru í rokkinu og tónlistarlífi hérlendis þegar Ísbjarnarblús kom út á sínum tíma. Maður hafði aldrei heyrt annað eins. Tónninn sem þarna var sleginn var nýr og öðruvísi, brútall og ágengur. Maður beið spenntur eftir hverri nýrri plötu með Bubba Mortens og þeim hljómsveitum sem hann spilaði með hverju sinni. Hver annari betri.

Svo liðu árin. Einhverra hluta fór Bubbi Mortens minnkandi í mínum huga. Hann höfðaði ekki lengur til manns eins og áður. Textarnir skiptu menn ekki máli, músíkin greip mann ekki lengur. Ég hætti að kaupa plötur með Bubba fyrir allmörgum árum. Þá er spurningin hvort það sé ég sem hafi breyst eða er Bubbi einfaldlega farinn að endurtaka sig og hættur að hafa eitthvað nýtt að segja sem höfðar til manns. Megas er aftur á móti að mínu mati alltaf jafn ferskur og heldur sínu striki hvernig sem allt veltist. Ég verð að segja það að mér finnst Bubbi Mortens vera orðinn útbrunnin tónlistamaður sem reynir allt hvað hann getur til að hafa fyrir salti í grautinn með því að kreysta sítrónuna eins og hann getur. Enn koma nokkrir dropar úr henni. Það er í sjálfu sér eðlilegur hlutur því þetta er hans vinna. Það kom slatti af fólki í Laugardalshöllina í haust til að hlusta á hann syngja með lúðrasveit. Mikið skelfilega langaði mig lítið. Það er dæmigert fyrir stöðu hans að hann fór að fullyrða í vetur á bloggsíðunni sinni að hann væri víst góður. Þvílík lágkúra. Slík gæði er ekki hægt að mæla á einhverjum tommustokk hvað þá að menn séu dómarar í eigin málum um hvað er gott eða slæmt í þessu efni. Það er almenningsálitið sem er hinn eini dómari sem mark er takandi á á því sviði.

Bubbi hefur lengi predikað fyrir púritanískri stefnu varðandi texta. Hinn eini sanni tónn í hans augum í því sambandi er að syngja popplög á íslensku. Það má ekki gleyma því í þessu sambandi að Bubbi reyndi fyrir sér með "enska prógrammið" hér um árið en fékk vægast sagt litlar undirtektir enda komu lögin hans hræðilega út á ensku. Vínberin eru súr sagði refurinn þegar hann náði ekki í þau.

Bubbi gaf út í vor lag sem Óðinn Valdimarsson söng af mikilli snilld fyrir mörgum áratugum. Björn Jörundur flutti það með honum en það er varla hægt að tala um söng þegar Björn Jörundur er annars vegar. Að hlusta á hann flytja þennan texta er eins og járnstykki sé dregið eftir ryðgaðri bárujárnsplötu. Bubbi var ekki mikið betri. Þessi hörmung var spiluð eitthvað í útvarpinu en sögur fóru að því að kóngurinn sjálfur sæti örvæntingarfullur við símann og vældi í útvarpsstöðvunum um að spila lagið. Það hlýtur að vera ónotalegt að fá það á tilfinninguna að vera ekki lengur "inn".

Ég hef heyrt eitt lag af plötunni Fjórir naglar. Mér fannst það einfaldlega hræðilegt. Það er ekkert mál fyrir atvinnumenn í faginu að hrista plötur fram úr erminni en það er erfiðara að semja eitthvað sem er öðruvísi og betra en áður hefur verið gert. Mér finnst kóngurinn ekki vera í neinum fötum.

mánudagur, júní 09, 2008

Rakst í dag á myndband á vefnum frá Patró á sjómannadagshelginni þar sem löggan var neydd til að handtaka einhvern vitleysing sem hafði lamið og slasað fólk á balli fyrr um kvöldið. Vitleysingurinn hlustaði náttúrulega ekki á það sem löggan sagði og ætlaði bara að labba burtu eins og svona gaurar hafa vafalaust komist oft upp með gegnum tíðina. Lögreglan notaði þá piparúða til að gera gaurinn óvígan svo hægt var að handtaka hann án líkamsmeiðinga hjá honum eða lögreglunum. Þá tók hið dapurlega við enda þótt það sé nógu slæmt að þurfa að taka svona fanta úr umferð. Kringum lögreglurnar sem voru að handtaka manninn stóð hópur af æpandi lýð sem strax var kominn með myndavélar á loft til að ná öllu á myndband sem dæmi um meintan sífelldan fantaskap lögreglurnar sem æði margir hafa hátt um þessi misserin. Síðan var hlaupið heim og myndklippurnar settar á Youtupe og síðan hringt á fjölmiðla til að koma málinu í umferð. Það stóð ekki á viðbrögðum þessa svokölluðu fréttamanna sem vinna á fjölmiðlunum. "Piparúði á Patró" er dæmi um fyrirsagnir sem birtar voru. Það var ekki sagt "Slagsmálafantur handtekinn á Patró eftir að hafa slasað tvo". Nei, "Piparúði á Patró" skyldi það vera. Síðan kemur að þriðja þætti sem eru viðbrögð sjálfhverfa bloggliðsins. Einn þeirra lét sér sæma að hafa fyrirsögninga "Fasismi á Patró" Það vakti vissulega hörð viðbrögð en málsvörn viðkomandi var að það væri fasismi að beita piparúða. Að mínu mati er piparúði gríðarlega gagnlegt tæki við aðstæður eins og þær sem t.d. voru á Patró. Með honum er hægt að gera hvern sem er óvígan um stund og handtaka hann án þess að neinn skaði hljótist af. Vafalaust er þetta vont en það er líka vont að vera barinn af einhverjum slagsmálahundum. Vonandi eykur piparspreyið virðingu skrílsins fyrir lögreglunni. Það sést á myndskeiðum sem þessu frá Patró að sá tími er liðinn að menn geti sagt lögreglunni að hún sé helvítis fífl og labbað svo í burtu. Ég er á þeirri skoðun að rafbyssur séu nauðsynleg tæki fyrir lögregluna að hafa undir höndum svo það sé á hreinu. Ég veit ekki annað en að lögreglan í nálægum Evrópulöndum sé allstaðar vopnuð skammbyssum (nema kannski í Noregi). Vilja menn að það sé það sem koma skuli?

Angmassaliqfjörðurinn

Fór fyrsta túrinn á árinu upp að steini í kvöld. Hef sleppt Esjunni til þessa en nú er ekki til setunnar boðið að fara að fríska sig upp í brekkunum fyrir Laugaveginn. Það er reyndar orðiuð svo dýrt að keyra uppeftir að maður fer bara að hjóla uppeftir og hlaupa svona af og til. Túrinn upp að steini tók 37 mínútur sem er besti tími ever. Svo var skokkað rólega niður. Ég er hættur að fara hratt niður vegna hættu á að hrasa en það er gott að skokka rólega til að láta vöðvana framan á lærunum fá smá viðfangsefni. Bara að hafa allt undir kontrol til að detta ekki.

Eddi sagði mér þær leiðinlegu fréttir í gær að það er búið að blása ATC keppnina á Grænlandi af. Sveitarfélagið, sem hefur verið stór stuðningsaðili keppninnar, er við það að verða gjaldþrota og er komið með tilsjónarmann. Þá er allt skorið niður nema það allra nauðsynlegasta sem er lögbundið og annað ekki gert. Hlutir eins og ATC keppnin eru fyrir utan það nauðsynlegasta. Maður getur ímyndað sér hvaða áfall þetta er fyrir þá sem stóðu að keppninni. Heimamenn eru búnir að ganga í gegnum erfiðu árin sem fóru í að koma keppninni á hemskortið. Í fyrra og í ár var hún full. Þetta var allt að smella saman til að verða að alvöru viðburði á heimsvísu á þessu sviði. Þá þurfti þetta að gerast. Þetta hefur verið stórmál fyrir þetta litla afskekkta þorp að fá tugi erlendra aðila inn í þorpið í nær tíu daga. Menn eyða peningum og menn kynnast Grænlandi. Það er ekki lítils virði. Maður vonar bara að þeir nái vopnum sínum á nýjan leik.

sunnudagur, júní 08, 2008

Sigurvegarar í karla og kvennaflokki

Það var orðið þungbúið í morgun þegar við Neil fórum á fætur um kl. 5.30. Það spáði rigningu þegar liði á daginn og það var ekki annað að sjá en að spáin myndi rætast, bara spurning um hve lengi á almáttugi myndi halda í sér. Við vorum komnir inn í Elliðaárdal á sjöunda tímanum. Fyrstu menn voru komnir á staðinn og farnir að gera klárt. Skipulaging við undirbúning hlaupsins hafði mikið hvílt á herðum Ágústar formanns en margar viljugar hendur vinna létt verk. Fólkið dreif að og kl. 7.00 var ræst. Alls hófu 16 keppendur fyrsta 100 km hlaup sem haldið hefur verið hérlendis, 14 íslendingar, Neil sem er breskur og dani að nafni Tommy Carstensen. Gaman að sjá erlenda hlaupara taka þátt í hlaupinu. Neil er vitaskuld nokkursskonar heimamaður en danann kannaðist enginn við. Neil og daninn tóku strax forystuna og fóru hratt yfir. Veðrið hélst gott fyrstu klukkutímana svo maður vonaði það besta. Er á meðan er. Ég hefði ekki látið þurrt hey liggja í þessu veðurútliti en Jörundur spáði þurru út daginn þegar hann kom við á drykkjarstöðinni á vestari enda hlaupsins!! Maraþon kláraði Neil á um 3 klst sem er ótrúlegur hraði en engu að síður fannst manni hann skokka þetta mjög létt og virtist aldrei leggja að sér. Daninn var ekki langt undan en aðrir stilltu sig niður á þann tíma sem hentaði þeim best. Það er mikilvægt í svona löngu hlaupi að finna þann hraða sem manni líður vel á og muna eftir því að það er langt eftir. Börkur og Svanur voru í 3ja og 4ða sætinu og skiptust nokkuð á í þeim sætum yfir daginn. Á ellefta tímanum fór að rigna og þá hætti manni að lítast á þetta. Það er ekki auðvelt að hlaupa 100 kílómetra og hvað þá að gera það hundblautur og hrakinn. Margir kunnugir komu við á brautinni og tóku skemmri og lengri spöl með vinum og kunningjum. Það var sem sagt mikið líf á brautinni yfir daginn. Áfram hélt hlaupið og stöðugt rigndi. Í gámnum var hitað vatn og kakó sett í hlauparana eftir því sem lystin leyfði. Í 100 km hlaupi er almennt sagt að erfiðasti partur hlaupsins sé á milli 60 og 70 km. Við sextíu km markið er maður búinn að hlaupa mjög lengi en á heilt maraþon eftir. Það þyngir sporið fyrir marga sem er fyrst og fremst af andlegum toga. Þegar línuritið sem Ágúst og félagar settu á netið er skoðað á kemur í ljós að þetta reyndist staðreynd hjá mörgun. Sporin þyngdust á þessu tímabili en svo frískast menn aftur um 80 km. Þá er ca 1/2 maraþon eftir og það er vegalengd sem virkar auðveld í þessu sambandi. Fyrstu menn kláruðu á frábærum tíma, Neil á 7.53 og Tommy á 8.13. Það er flottur tími við þessar aðstæður. Menn geta ímyndað sér muninn á að hlaupa í svona rigningu eins og var í dag miðað við að geta hlaupið í stuttbuxum og bol í þægilegum hita.

Börkur náði 3ja sætinu eftir grimma keppni við Svan sem varð fjórði í hlaupinu og annar íslendinga. Hann er 63 ára gamall en alltaf jafn léttur á sér. Svo gaman sem það er þá kláruðu allir hlaupið sem hófu keppni. Kalli var hætt kominn um tíma og búinn að koma sér fyrir inni í horni í skúrnum. Þá bar Gunna Palla að. Hann kunni nokkur "magic touch" sem gerðu Kalla eins og nýjan mann þannig að hann spratt upp og út, hvarf út í rigninguna og lauk keppni með sóma. Ingólfur lauk 100 km hlaupinu 69 ára að aldri. Börkur, Svanur, Eiður og Elín bættu sína fyrri tíma. Aðrir náðu settum markmiðum. Það er ekki einfalt að hlaupa 100 kílómetra en hvað þá að gera það í rigningu og strekking eins og var mestan partinn í dag. Til hamingju öll sömul. Framkvæmd hlaupsins var til fyrirmyndar sem skiptir ekki litlu máli. Það varðar miklu fyrir þá sem eru að berjast á brautinni að skynja það að allt er undir kontrol og þörfum þeirra er að fullu sinnt. Slíkt skilur eftir sig góðar minningar þáttakenda sem er besta auglýsing sem svona hlaup getur fengið. Það er mjög fínt að við skulum hafa fengið 16 keppendur. Í þeim 100 km hlaupum sem ég þekki til í Danmörku hafa keppendur verið svona um 30 en upptökusvæðið giska ólíkt að mannfjölda.

Ég set dálítið af myndum inn á myndasíðuna. Linkurinn er hér til hægri.

laugardagur, júní 07, 2008

Þátttakendur í fyrsta 100 km hlaupi hérlendis

Komum heim í dag eftir góða viku í Barcelona. Lítið gert af viti nema taka því rólega, skoða sig um og njóta vikunnar. Kolvetnasukkið hefur verið algert þessa daga svo það verður fínt að koma heim og fara að borða almennilegan mat. Síðan verður hafist handa við að sukkjafna. Eitt er á hreinu. Mýtan um hvað allur matur sé ódýr í útlandinu fór út í veður og vind þessa daga í Barcelona. Mér finnst dýrt að kaupa í matinn þarna að mestu leyti. Vitaskuld er sumt ódýrara eins og að maður fékk rauðvínsflösku á 2 Evrur í matvörubúðinni en það var líka á útsölu. Yfirleitt kostaði rauðvínið 8 - 15 evrur. Annað var bara dýrara en hér heima. Ég er alveg viss um að fullu Bónuspokarnir fjórir sem ég keypti út í búð þegar heim var komið hefðu kostað meir en 100 evrur úti á Spáni. Auðvitað skptir það máli að gengi krónunnar gagnvart Evru hefur fallið um allt að 50% á einu ári.

100 km hlaupið á morgun. Verst að það spáir ekki vel. Leiðinlegt að veðrið skuli ætla að stíða okkur en svona er þetta. Í tvö skipti af þremur sem ég hef hlaupið á Borgundarhólmi hefur verið úrhellisrigning daginn eftir að hlaupi lauk þannig að veðrið er happdrætti víðar en hér hjá okkur. Það eru skráðir 14 harðsvíraðir keppenbdur til leiks á morgun. Það rjátlaðist úr upprunalegum hóp og fóor svo að reyndustu hlauararnir eru eftir en hinir láta þetta bíða betri tíma. Það er skynsamlegt. Það er ekkert grín að hlaupa 100 km, jafnlegt þótt rólega sé farið og eins gott að vera vel undir búinn. Neil kemur frá Bretlandi í kvöld. Sæki hann niður á BSÍ og kem honum í rúm. Gaman að sjá þann góða dreng aftur.

miðvikudagur, júní 04, 2008

Lükas er vaknadur. Nü í birtingarmynd ísbjarnar. Einmana og villtur ísbjorn var á ferdinni nordur í landi. Teir sem eru medvitadir eru natturulega midur sín yfir ad hann skuli hafa verid drepinn sem var tad eina skynsamlega í stodunni. Tad ma takka fyrir ad hann sást og var unninn adur en hann vard mannsbani. Tad er meira en lítid fyrirtaeki ad svaefa svoa rándýr, geyma tad um ótiltekinn tíma og koma tvi svo yfir sundid til Graenlands. Ég skil hins vegar tá gagnrýni ad veginum yfir Tverárhlídarfjall skyldi ekki hafa verid lokad tvi soltinn ísbjorn er ekkert lamb ad leika sér vid.

mánudagur, júní 02, 2008

Ég var á Spáni fyrir ári sídan. Tá var Evran rúmar 80 kr. Nú er hún taepar 120 kr eda naesum tvi 50% dýrari. Tetta munar svakalegu. Manni finnst verdid vera mjog hatt a flestum hlutum, alla vega er ekkert ódýrt ad vera hér. Tó getur madur fengid raudvinsflosku út í matvorubúd á 250 kall (á tilbodi). Tad sama fannst mér vera uppi á teningnum í Danmorku tegar ég var tar um daginn. Hálfur líter af vatni kostar 20 kr danskar úti í búd eda 300 kall. Danska krónan fylgir Evrunni alveg og hefur haekkad álíka. Dollarinn hefur haekkad mun minna eda um ca 25% á sama tíma. Fyrir venjulegt fólk sýnist manni vera skynsamlegast ad fara í frí til Bandaríkjanna eda fyrrum Austur Evrópu til ad vera ekki í alveg sama verdlagi og heima og geta leyft sér eitthvad umfram tad naudsynlegasta.
Um tima var eg ad velta fyrir mer ad taka tatt i 100 km hlaupinu i Fossvoginum og nagrenni en er haettur vid tad. Faeturnir eru ordnir finir eftir Borgundarholm svo tad er ekki vandamalid. Teir turftu svona viku til ad verda finir. Tad hefdi verid gaman ad vera med i fyrsta 100 km hlaupi herlendis en tad hefdi ruglad skipulagid dalitid. Ed tarf ad fara ad fara ad aefa brekkuhlaup skipulega m.a. fyrir Laugaveginn og leggja timann nidur fyrir naestu trja manudi eins og haegt er. Tatttakan i hlaupinu er ordin fin eda 20 manns sem eru skradir til leiks. Tad fer fram ur bjortustu vonum. Reyndar eru timamorkin dalitid rum til ad klara hlaupid eda 15 klst. Midad vid hvad brautin er flot vaeru 12 - 13 klst naer lagi tegar tekid er mid af samsvarandi hlaupum i nagrannalondum okkar.

sunnudagur, júní 01, 2008

Forum til Barcelona a fostudaginn i viku fri. Komum heim n.k. fostudag, matulega til ad fylgjast med 100 km hlaupinu daginn eftir. Neil kemur til landsins seint a fostudagskvoldid svo hann getur lagt sig smastund adur en hlaupid hefst kl. 7.00 a laugardagsmorgun.