mánudagur, nóvember 28, 2011

Dirch Passer synger Tysk på toilet

Er þessi blettur eins milljarðs virði?



Þetta Núbó dæmi á Grímsstöðum er eiginlega allt með ólíkindum, alveg frá upphafi til enda. Það byrjar með því að það er lanserað út að ljóðskáld og náttúruunnandi frá Kína sem hafi hrifist svo af Íslandi hafi séð bújörð auglýsta og gert í hana tilboð. Hann hafði síðan áfrom um að byggja upp ferðaþjónustu, reisa á jörðinni 400 gesta hótel og byggja golfvöll svo dæmi séu tekin um hugsanlegar framkvæmdir. Hann hafi oft tekið farsælustu ákvarðanir sínar í viðskiptum á meðan að hann orti ljóð svo þarna hlaut hann að hafa ort heilan ljóðaflokk miðað við öll áformin. Það var ekki verra að hann hafði haft sterkar taugar til þjóðar og lands síðan á áttunda áratugnum síðan honum hafði verið gefin lopapeysa af skólafélaga sínum frá Íslandi sem var í skólavist í Kína í boði kínverska kommúnistaflokksins. Svo hafði hann komist á bragðið með að borða harðfisk og hákarl og drekka íslenskt brennivín svo það var erfitt að biðja um meira. Sannur íslandsvinur var mættur. Áform um framkvæmdir á jörðinni voru upp á fleiri tugi milljarða króna og þær áttu að hefjast strax næsta vor. Hann vildi byrja sem fyrst því það var eitt af áformum hans að leggja íslendingum lið í baráttu við kreppuna því af aurum átti hann nóg. Það skipti ekki öllu máli í þessari umræðu þótt Grímsstaðir á Fjöllum liggi það hátt í landinu að þar vex varla stingandi strá, golfvöllur skyldi byggður.

Það var einungis einn galli á gjöf Njarðar, Núbó mátti ekki kaupa jörðina samkvæmt gildandi landslögum. Því var sent erindi til innanríkisráðuneytisins þar sem óskað var eftir undanþágu frá lagatexta. Meðan beðið var eftir úrskurði ráðuneytisins þá var tíminn notaður vel s.s. að bjóða íslenskum skáldum til Kína til að lesa upp ljóð. Fyrir tilviljun voru valin til ferðarinnar skáldkona sem var alin upp í næsta hreppi við Grímsstaði svo og sonur fyrrverandi forseta landsins. Sá lét vel af Kínaförinni í viðtali við Mbl.

Margir urðu afskaplega glaðir við þessar fréttir og vildu drífa jarðakaupin í gegn sem fyrst svo hægt væri að hefjast handa og auka umsvif og hagvöxt á Norðausturlandi. Þó voru einhverjir efins. Meðal þeirra var hótelstjórinn í Reynihlíð sem hefur dágóða reynslu af hótelrekstri. Hann skrifaði ágæta grein um hvaða umgjörð þyrfti í kringum 400 gesta hótel. Það kom í ljós að það þyrfti að byggja upp dágott þorp er til að standa undir slíkri stassjón. Það þyrfti að byggja upp íbúðarhúsnæði, veitukerfi að og frá, þarna þyrfti ýmsa opinbera þjónustu s.s. leikskóla, skóla og annað sem tilheyrir þéttbýli af þessari stærð o.s.frv. o.s.frv. Þessar upplýsingar slógu ekki á efasemdaraddirnar því maðurinn hlaut að sjá lengra en aðrir. Síðar kom í ljós að Núbó hefði verið hátt settur innan Áróðursmálaráðuneytis Kína. Áróðursmálaráðuneytið í Kína er nú engin auglýsingastofa heldur segja kunnugir menn að þar sé á ferðinni stofnun sem sé samsvarandi KGB í Sovétríkjunum gömlu. Þeir sem ekki vita hvað KGB starfaði við geta sem best gúgglað það. Þau fyrirtæki sem Núbó rekur eru heldur dularfull og ekki hægt að henda reiður á þeim segja þeir sem hafa lagt sig eftir því. Ákveðinn áróður fór greinilega af stað. Fréttir bárust af því í gegnum fjölmiðla að tuga milljarða fjárfesting væri í uppnámi ef Innanríkisráðuneytið svaraði ekki já og það strax.

Sérfræðingar Innanríkisráðuneytisins fóru yfir málið og komust að niðurstöðu. Kaup þessa manns stönguðust á við íslensk lög. Punkt. Slut. Þá kom í ljós innistæðan fyrir íslandsvináttunni og hve þakkirnar fyrir lopapeysuna ristu djúpt. Áður en sólarhringur var liðinn frá úrskurði ráðuneytisins var Núbó kallinn hættur við allt saman, hundfúll og hreytti ónotum í land og fólk. Það er nú hinsvegar einu sinni svo að sjaldan fellur tré við fyrsta högg. Ef kaupsýslumaður með nef fyrir viðskiptum hefur trú á einhverju verkefni þá gefst hann ekki upp við fyrsta mótbyr. Ef hótelið á Grímsstöðum og golfvöllurinn góði hefðu verið svo arðbær prósjekt í huga íslandsvinarins frá Kína þá hefði hann farið að hugsa út leiðir til að ná því gegn ef jarðakaupin gengju ekki í gegn. Ef hann hafði svo mikinn vilja til að nota milljarðana sína til að hjálpa íslendingum í erfiðri stöðu m.a. vegna ástar sinnar á harðfiski og hákarli, þá hefði hann leitað eftir því að fá leigða góða landspildu af ríkinu fyrir allar framkvæmdirnar. Innanríkisráðuneytið hefur vitaskuld ekki frumkvæði að slíkri samningagerð. það ætti hver maður að sjá. Ráðuneytið er ekki fasteignasala. Nei, hann var snöggur til að gleyma öllum fyrirhuguðum góðverkum og sagðist bara hafa samskipti við Svía og Finna fyrst íslendingar væru svona vanþakklátir að gera ekki allt sem hann fór fram á, orðalaust.

Við getum ímyndað okkur að því sé ekki veitt eftirtekt erlendis sem gerist hér í fásinninu. Það var öðru nær í þessu tilviki. Það var t.d. forsíðufrétt í Financial Times að ráðuneyti innanríkismála á Íslandi hefði stoppað fyrirhugaða landvinninga kínverja hérlendis. Bragð er að þá barnið finnur. Ég geri ekki ráð fyrir að það sé slík gúrkutíð hjá FT að þeir hafi ekki haft neitt annað í fréttum en einhverja jarðasölu á íslandi sem þrautavararáð. Þetta var sem sagt stórmál í augum margra erlendra fjölmiðla.

Það var með ólíkindum að heyra málflutning ýmissa aðila hérlendis eftir úrskurð ráðuneytisins. Menn hreint misstu sig yfir því að manni úr innsta hring kínverska kommúnistaflokksins skyldi ekki veitt undanþága frá gildandi lögum og seld tæp 0,3% af landinu. Það er eins og þeir hafi aldrei heyrt talað um princip umræðu. Ég hef spurt hvað myndu menn segja ef það kæmi tilboð upp á 100 milljarða króna fyrir Vestfirði komplett. Íbúðarhús, bújarðir og fyrirtæki. Ef 100 ma. væru ekki nóg þá væri hækkað í 200. Eru Vestfirðir falir? Hver eru principin? Hvað er falt? Þeir sem vilja selja Grímsstaði umhugsunarlaust verða að svara svona spurningu. Ef Grímsstaðir eru eyðimörk þá eru Vestfirðir grjót.

Í mínum huga er málið ákaflega einfalt. Kínverjar sá möguleika á að ná varanlegri fótfestu hérlendis með landakaupum þrátt fyrir gildandi lög. Þeir eru þekktir fyrir að hugsa strategískt með langtímasjónarmið í huga. Það er út af fyrir sig mjög skynsamlegt. Þeir álitu sem svo að íslendingar stæðu höllum fæti í slíkri umræðu vegna efnahagsástandsins. Því væri um að gera að veifa nógu stórri ávísun framan í þessa norðurhjarabúa. Ísland liggur nefnilega ekki langt frá Norðurpólssvæðinu.

Asni klyfjaður gulli kemst innum flest borgarhlið, það hefur sagan sýnt. Það gekk þó ekki í þetta sinn, ekki enn að minnsta kosti.

föstudagur, nóvember 25, 2011

Carlos Puebla - Hasta siempre

Frá Rauðasandi



Ég hef undanfarið verið að lesa bókina sem enginn vill hafa nafnið sitt í, nefnilega bókina Íslenskir kommúnistar 1918 -1998. Hún er ágætlega skemmtileg aflestrar þótt efnið sem slíkt sé misskemmtilegt. Ég skrifa kannski um bókina síðar en ég sé að það hefur ekki matt muna miklu að ég hafi komist í nafnaskrá bókarinnar. Það er minnst á Vináttufélag Íslands og Kúbu í bók Hannesar og nokkrir nafngreindir sem fóru í vinnuferðir til Kúbu fyrir um 30 árum síðan. Ég var einn þeirra sem fór í slíka vinnuferð um áramótin 1979-1980. Það var engin boðsferð heldur borgaði maður pakkann sjálfur. Það hefur reyndar kannski ekki verið innheimt há húsaleiga fyrir skálann sem við sváfum í. Ég var staddur hjá Hauk bróður um vorið 1979 í sambandi við 90 ára afmæli Hvanneyrarskóla. Þá fletti ég Þjóðviljanum einu sinni sem oftar og sá auglýsingu þar sem auglýst var eftir þátttakendum í vinnuferð til Kúbu um veturinn. Ég hafði ekki komið nema einu sinni áður til útlanda þegar þarna var komið en langaði að brjótast aðeins úr viðjum vanans. Því sótti ég um að fá að taka þátt í þessari ferð, því ekki það. Það höfðu ekki margir farið til Kúbu af Rauðasandinum á þessum tíma. Þetta gekk eftir og svo var flogið til Kúbu um miðjan desember í gegnum Danmörku, Finnland og Kanada. Þarna var samankominn 200 manna hópur frá Norðurlöndunum sem deildi súru og sætu dáltinn spöl fyrir utan Havanna í mánaðartíma. Þetta var náttúrulega fyrst og fremst gríðarlega skemmtileg upplifun. Við unnum við að tína appelsínur og mandarínur, byggja undirstöður undir blokk, mála blokk og rétta nagla (því allt var vel nýtt). Þarna komst ég hvað hæst í mannvirðingarstöðunni sem iðnaðarmaður. Ég hafði haldið á hamri áður og þegar spurt var hvort væri einhver carpender í hópnum (ég vissi fyrst ekkert hvað carpender þýddi) þá gaf ég mig fram. Við vorum látin slá upp mótum fyrir undirstöður að nýrri blokk. Ég raðaði nöglum í kjaftinn og negldi af miklum ákafa. Þetta þótti innfæddum afar magnað og ég var innan skamms tíma munstraður í stöðu yfirsmiðs. Þegar var farið að steypa þá kom steypubíll með hræruna og renndi henni í sílóið. Yfirsmiðnum var svo fengin hin ábyrðarmikla staða að hleypa úr sílóinu í mótin. Það vita allir sem hafa komið að steypuvinnu að hærra verður ekki komist á þessum vettvangi. Síðan var skarkað í mótunum með steypustyrktarjárnum því víbrator var ekki til. Þegar beðið var eftir næsta bíl þá tók ég líka járn og fór að skarka því mér leiddist að gera ekki neitt. Þá stukku innfæddir til og sögðu: No, no, you are the specialist!!! Kröftum svona verðmæts manns var skyldi ekki sóað í eitthvað skark.

Maður hafði nú ekki mikinn áhuga á innrætingunni en þeim mun meiri áhuga á að njóta þessara vikna eins og hægt var. Sígaretturnar voru svo ódýrar þarna að maður fór vitaskuld að reykja aftur, Havanna Club 7 ára var drukkið eftir þörfum flest kvöld og svo var spáð í stelpurnar. Það voru einhverjir leiðinda fyrirlestrar sum kvöld en þá svaf maður yfirleitt eða laumaðist burt. Aftur á móti voru nokkrum sinnum mjög skemmtilegir tónleikar og rís Carlos Puebla hæst í minningunni í þeim efnum. Við ferðuðumst töluvert um, bæði var okkur sleppt lausum í Havanna og eins fórum við í viku ferð suður eftir Kúbu allt niður til SanDíagó. Við skoðuðum verksmiðjur, bændabýli, skóla og einu sinni komum við á geðveikrahæli. Það má líklega segja að þar var dálítið "Set Up" en það hafði verið sett upp íþróttamót fyrir sjúklingana á velli sem þar var. Við komum í bjórverksmiðju sem var vægt sagt ekki aðlaðandi vinnustaður. Allt sem illa gekk var sagt Bandaríkjamönnum að kenna. Það má svo sem segja að viðskiptabann þeirra hafði vitaskuld sitt að segja en Kúbu var á þessum tíma haldið uppi af austurblokkinni. Allslags tæki og tól voru flutt til Kúbu fyrir lítinn pening. Fyrir sykurinn var aftur á móti greitt á því verði sem Kúba þurfti að fá til að halda ekónómíunni gangandi. Ég man eftir að einu sinni var verið að segja okkur hvað Kúba væri mikil fiskveiðiþjóð og nefndar tölur um heildarafla í því sambandi. Ég vissi hvað heildarafli var mikill á Íslandi, sem var miklu meiri en afli Kúbumanna, og sagði frá því. Það féll ekkert í sérstaklega góðan jarðveg. Ég man að manni þótti undarlegt að við vorum undir það búin að þurfa að framvísa kvittunum fyrir öllu sem við höfðum keypt við brottför úr landinu svo hægt væri að bera þær saman við gjaldeyrinns em við höfðum með okkur við komuna til landsins. Svo átti að stemma af. Maður kynntist vöruskortinum því þegar mig vantaði filmur í vélina þá voru bara til svarthvítar filmur. Þegar flassið varð battéríalaust þá var úr vöndu að ráða því batterí fengust ekki og maður var mállaus á spænska tungu. Við gengum því á milli búða í Havanna, bentum á flassið og réttum upp litla puttann til að sýna hvaða stærð mig vantaði. Það hafðist á endanum að kaupa batterí sem pössuðu.

Maður á enn margar góðar minningar frá þessum tíma sem tók alltof fljótt enda. Íslendingahópurinn var hæfilega alvörugefinn í þessari ferð en hafði því meiri áhuga á að njóta stundarinnar í hópi góðra félaga. Við héldum mest sjó með Finnunum eins og oft gerist innan norrænnar samvinnu. Ég skrifaði einhverja grein í Þjóðviljann þegar ég kom heim og sagði frá ferðinni. Það var held ég fyrsta grein sem ég skrifaði í fjölmiðla. Síðar sá ég að í næstu ferð tók þátt í henni af Íslands hálfu fólk sem fór líklega í hana af miklu meiri alvöru, alla vega miðað við hve gáfulega það talaði á fundum Alþýðubandalagsins á þessum árum. Þessi ferð olli hins vegar straumhvörfum í lífi mínu því þegar heim var komið þá tók ég ákvörðun um að sækja um skólavist í Svíþjóð. Ég hafði kynnst það mörgum Svíum og Finnum í ferðinni að það var ekki eins fjarlægt og áður að flytjast erlendis. Ég bjó svo í Svíþjóð og Danmörku að mestu leyti næstu sjö árin en það er önnur saga.

Ég var heppinn um daginn. Þá fékk ég tölvupóst frá R.J. Dick sem sér um framkvæmd hlaupsins milli Birmingham og London. Einhverra hluta vegna hafði nafnið mitt ekki komist í pottinn sem hinir heppnu voru dregnir úr. Hann bauð mér því að taka þátt í hlaupinu sem ég vitaskuld þáði. Það verða því 144 mílur í byrjun júní á næsta ári. Ég ætla að byrja að æfa formlega nú um mánaðamótin. Ég pantaði hótelherbergi tvær nætur í Birmingham í vikunni. Það kostaði um 50 pund. Svo þarf ég að ganga frá flugi með Easy Jet sem fyrst en það kostar um 130 GBP með einni tösku (báðar leiðir).

Við héldum fund í 100 km félaginu í vikunni. Alls hafa 16 íslendingar lokið 100 km hlaupi eða lengra síðan um miðjan maí. Alls hefur nú 51 íslendingur lokið 100 km hlaupi eða lengra. Fyrir sjö árum vorum við fimm.

laugardagur, nóvember 19, 2011

Sumargleðin.

Villi Bjarnason var á klukkunni þegar Víkingur sótti Stjörnuna heim í gærkvöldi



Ég fylgdi gömlum félaga úr Aþýðubandalaginu, Þóri Karli Jónassyni, til grafar í vikunni. Hann var nú svo sem ekki gamall eða tæpum tuttugu árum yngri en ég en sama er, það eru um tuttugu ár síðan að leiðir okkar lágu saman upp úr 1990. Hann var ekki nema rétt um tvítugt á þeim árum en ókunnugir hefðu getað haldið að hann væri um þrítugt því hann var fullorðinslegur af þetta ungum manni að vera. Þórir Karl var óþolimóður á þessum árum einsog gengur um unga menn og vafalaust hefur hann troðið á einhverjum tám sem þoldu slíkt heldur illa. Hann var hins vegar ekki í bakstunguliðinu heldur kom framan að öllum í umræðunni og sagði hreint út það sem honum lá á hjarta. Ég hitti Þóri síðan alltaf af og til gegnum árin og við gáfum okkur alltaf tíma til að spjalla saman. Ég vissi að lífið hafði verið honum erfitt á ýmsa lund. Hann fékk mjög slæma brjóskeyðingu í bakið á þrítugsaldri og varð óvinnufær upp frá því. Vegna þess gekk hann í gegnum slíka uppskurði að mann setti hljóðan við að hugsa um hvað er reynt og hvað hægt að gera. Þórir var félagsmálamaður af lífi og sál og var mjög virkur sem slíkur meðan heilsan entist. Hann lá ekki á kröftum sínum og vildi gera gagn þar sem hann hafði tök á. Meðal annars var hann formaður Reykjavíkurdeildar Sjálfsbjargar í allnokkur ár á síðasta áratug. Það reynir hins vegar á þegar menn eru stöðugt staddir í brattri og erfiðri brekku og vita að hún tekur aldrei enda. Maður getur rétt reynt að ímynda sér hvaða áfall það hefur verið fyrir ungan kraftmikinn fjölskylduföður þegar honum er kippt til hliðar í samfélaginu þegar lífið er rétt að byrja og fær aldrei þá möguleika að rækta þá hæfileika sem honum voru gefnir. Slíkt getur enginn gert sér í hugarlund nema sá sem það reynir. Eftir því sem presturinn sagði í minningarorðum þá höfðu síðustu árin verið honum mótdræg og heilsan verið farin að láta undan á ýmsa lund. Þórir var ekki nema rúmlega fertugur þegar hann lést.

sunnudagur, nóvember 13, 2011

Gipsy Kings - Bamboleo

Haukur bróðir og Dóri frændi spjalla saman á Bakkamóti



Leitin að svíanum á Sólheimajökli hefur eðlilega verið fyrirferðarmikil í fréttum á undanförnum dögum. Þetta mun vera ein umfangsmesta útkallsaðgerð björgunarsveitanna um langa hríð. Hún hefur örugglega kostað tugi milljóna króna þegar allt er talið enda þótt aldrei verði ein tala óyggjandi í slíku samhengi. Þrátt fyrir að menn segi að sönnu að mannslíf séu aldrei metin til fjár þá er óábyrgt annað en að reyna að gera sér grein fyrir hvað svona aðgerð kostar. Hádegismaturinn er aldrei ókeypis.

Það er dálítið óhuggulegt að hugsa til þess hve margir erlendir ferðamenn hafa farist hérlendis á liðnum árum. Ástæður þess geta verið margskonar. Vanmat á aðstæðum, vanþekking á náttúrunni, reynsluleysi, lélegur útbúnaður, skortur á upplýsingum, lélegar merkingar á gönguleiðum og þannig mætti áfram telja. Það er náttúrulega eitthvað meir en lítið öðru vísi en það ætti að vera þegar ókunnugur maður fer einn á jökul undir myrkur, laklega útbúinn, í háskammdeginu í hryssingsveðri. Slíkt getur vitaskuld varla endað nema á einn veg.

Eftir að hafa fylgst með fréttum af þessari leit þá er ég enn sannfærðari en áður um að núverandi fyrirkomulag og stefna björgunarsveitanna getur ekki gengið upp. Hvað myndi gerast ef það kæmi álíka útkall og var í síðustu viku núna strax eftir helgina og sömu 300-500 einstaklingarnir sem hlupu frá orfi og ljá í síðustu viku yrðu aftur kallaðir til leiks í álíka leit? Þeit væru þá aðra vikuna í röð að leita sólarhringum saman og gætu ekki sinnt daglegum störfum sínum á meðan. Svo myndi sú leit taka enda en þá kæmi nýtt útkall sömu gerðar um helgina þar á eftir. Myndu þá flestir segja að þeir gætu ekki mætt vegna þess að þeir þyrftu að vinna fyrir salti í grautinn og gætu ekki endalaust hlaupið frá öllu sem þeir bera ábyrgð á? Yrði þá sá aðili sem væri svo óheppinn að vera númer þrjú í röðinni að týnast bara að bíta í það súra epli að það kæmi enginn að leita að honum því það væru allir búnir að fá nóg? Engu að síður hefði honum verið sagt að björgunarsveitirnar á Íslandi kæmu alltaf og leituðu að öllum sem týndust útkallsbeiðanda að kostnaðarlausu.

Nú verður vafalaust sagt að þetta muni aldrei gerast. Hvað veit maður um það? Nákvæmlega ekkert. Það hefur oft sýnt sig að það sem á alls ekki að geta gerst það gerist. Það verður að hugsa svona mál í princippum en ekki út frá tilfinningum. Það þarf að setja upp mismunandi sviðsmyndir og rekja síðan viðbrögð við hverri fyrir sig eftir mismunandi útfærslu. Fyrstu viðbrögð við verstu sviðsmyndum í þessu sambandi er vitaskuld að leita leiða til að draga úr möguleikum á útköllum.

Hvernig er hægt að fækka útköllum og minnka þannig líkurnar á að svona staða skapist? Það er aðallega hægt á tvennan hátt. Í fyrsta lagi með fræðslu og upplýsingum. Ég ætla ekki að rekja útfærslu á því enda hægt að gera það á margan hátt. Í öðru lagi er til áhrifamikil aðferð til að fækka útköllum og þar með minka álagið á björgunarsveitir landsins. Það er með því að láta menn borga útkallskostnað við ákveðnar aðstæður. Það er náttúrulega absúrd að þegar rjúpnaveiðitímabilið hefst ár hvert að þá sé farið að ræða um líkleg og væntanleg útköll björgunarsveitamanna til að færa rjúpnaskyttur til byggða eins og hvern annan sjálfsagðan hlut. Þegar þarf að leita að mönnum vegna þess að þeir eru villtir sökum þess að þeir hafa ekki tekið með sér GPS tækið eða kunna ekki á það, hafa ekki áttavita eða kunna ekki á hann eða hafa ekki tekið með sér nesti og eru orðnir magnþrota af hungri þá eru engar afsakanir gildar. Hér ræður hrein og klár heimska för. Það myndu allar rjúpnaskyttur fljótlega fara að læra á GPS tækið og muna eftir að hafa með sér nesti ef fréttir af háum útkallsreikningum við slíkar aðstæður myndu fara að berast.Þegar jeppakallar strauja inn á hálendið eða upp á jökla um hávetur án þess að hafa heyrt minnst á veðurfréttir hvað þá að hlusta á þær þá er eitthvað stórkostlegt að. Þegar ferðaskrifstofur lenda í hættu með viðskiptavini sína vegna vanþekkingar, vanmats á aðstæðum eða ónógs undirbúnings þá er það mannaskuld. Ef þeir sem kalla á björgunarsveitir við slíkar aðstæður sem hér er lýst að framan þyrftu að borga vænan útkallsreikning þá myndi þessi útköll hverfa eins og dögg fyrir sólu. Það myndi minnka álag á björgunarsveitir verulega og kostnað sveitanna. Þær gætu einbeitt sér að meginhlutverki sínu að koma fólki til aðstoðar við aðstæður sem það ræður ekki við. Björgunarsveitakerfi landsins er nefnileg allt of dýrmætt til að það megi halda þeim uppteknum við allra handa útköll sem hægt er að koma í veg fyrir á tiltölulega einfaldan hátt.

Af því ég veit að það eru langt í frá allir sammála mér í þessu efni þá geri ég ráð fyrir að það yrði sagt sem mótrök við skoðunum mínum að það sé ekki hægt að skilja á milli tegunda útkalla, þetta sé og flókið og viðkvæmt, það eigi að hugsa um náungakærleikann o.s.frv. o.s.frv. Mín skoðun er engu að síður sú að starfsemi björgunarsveita að almannaheill eigi að beinast fyrst og fremst að því að aðstoða fólk sem lendir í aðstæðum sem það ræður ekki við og ber ekki ábyrgð á. Þegar þær eru kallaðar út til að aðstoða fólk sem skapar sinn eigin vanda sjálft þá á það að kosta útkallsbeiðandann peninga. Það mun fljótlega fækka þeim tegundum útkalla verulega. Síðan verður að leita leiða til að fræða erlent ferðafólk um eðli náttúru landsins og þær hættur sem hún býr yfir. Það gæti bæði bjargað mannslífum og dregið úr gríðarlega kostnaðarsömum útköllum og erfiði og álagi á það ágæta fólk sem sér tíma sínum vel varið í starfsemi björgunarsveitanna.

Í gær var haldið ættarmót Bakkasystkina (mömmu og systkina hennar) og afkomenda þeirra. Það var vel mætt og fín samkoma. Um 80 manns mættu og var um 87 ára aldursmunur á þeim elsta og yngsta. Þeir bræður Helgi og Halldór Árnasynir stjórnuðu samkomunni af alþekktum myndugleika. Ragnar frændi á Bakka flutti góða samantekt um foreldra þeirra Bakkasystkina, Gunnlaug afa og Önnu ömmu. Gunnlaugur og Anna eru því mjög algeng nöfn í mínum frænsystkinahópi. Þau hófu búskapinn í torfkofa fyrir um 90 árum síðan við lítil efni. Þau komu átta börnum vel til manns, efldu jörðina að nýbyggingum og ræktun og skiluðu góðu dagsverki til næstu kynslóðar. Afi fékk lömunarveikina um tvítugt og gekk við staf upp frá því. Þeir sem til þekkja segja með ólíkindum hverju hann kom í verk við erfiðar aðstæður. Fötlunin gerði það að verkum að hann lagði sig fram um að vinna verk sem hægast og hugsaði nýjar lausnir á mörgum erfiðisverkum. Þrátt fyrir næg verkefni við búið þá sýslaði hann við ýmislegt annað þar fyrir utan s.s. ljósmyndun, bókband, félagsmálastörf, kórsöng og grenjavinnslu. Unga fólkið hefur afar gott af því að heyra frá því við hvaða aðstæður afar þeirra og ömmur ólust upp við og skynja að það var ekki allt sjálfsagt hér áður sem fólki finnst svo sjálfsagt í dag að það er ekki einu sinni hugsað um það.

miðvikudagur, nóvember 09, 2011

Gipsy Kings - la Bamba

Það blæs undir Stórafossinn



Ég heyrði sagt frá einni döprustu skoðanakönnun sem ég hef heyrt sagt frá lengi í fréttum í gær. Raunar er það spurning hver standardinn sé á því sem kallað eru fréttir og er lesið upp í ríkisíutvarpinu. Hin svokölluðu Hagsmunasamtök heimilanna (sem eru náttúrulega ekkert annað en hagsmunasamtök tiltölulega fárra heimila) höfðu látð gera skoðanakönnun og m.a. var spurt: Vilt þú láta fella niður hluta af höfuðstól lána hjá Íbúðarlánasjóði? Vitaskuld svöruðu langflestir því að það vildu þeir vitaskuld. Hver vill það ekki? Það fellur yfirleitt í góðan farveg ef fólk heldur að einhver annar muni borga skuldir þeirra. Það er bara svo sjaldan að það gerist. Hver myndi svo borga skuldir þeirra sen fengju skuldir sínar felldar niður að hluta til hjá Íbúðarlánasjóði. Það væru lífeyrisþegar og þeir sem fá greitt úr lífeyrissjóðum í framtíðinni. Íbúðarlánasjóður fjármagnar sig með skuldabréfaútgáfu sem m.a. lífeyrissjóðirnir kaupa. Ef þau eru ekki greidd til baka þá tapa lífeyrissjóðirnir. Það er ekki flóknara.
Önnur spurningin var: Viltu að verðtryggingin verði felld niður? Mikill meirihluti þeirra sem svöruðu vildu það vitaskuld. Umræðan hefur verið á þann veg að sá hluti af vöxtum lána sem heitir verðbætur muni falla niður en vextir standa eftir óbreyttir. Ég fæ ekki séð hvernig það geti gerst. Ef verðtryggingin verður felld niður þá munu vextir hækka. Það er svo einfalt. Á hinn bóginn myndu vaxtahækkanir Seðlabankans bíta mun betur en þeir gera í dag. Þeir færu lóðbeint út í verðlagið. Til þess væri leikurinn gerður. Það myndi fæla fólk frá að taka lán því þau gætu orðið svo dýr ef verðbólga hækkaði og vextir í kjölfar þess. Verðtryggingin var tekin upp fyrir um 30 árum í kjölfar þess að vextir höfðu verið neikvæðir í áraraðir og gríðarleg fjármunatilfærsla átt sér stað frá þeim sem áttu aura í banka til þeirra sem höfðu aðgengi að lánsfé. Ef menn eru að tala um spillingu nú, þá ættu menn að líta þessa áratugi aftur í tímann. Ég man eftir að hafa verið á opnum fundi með Ólafi Jóhannessyni vestur í Stykkishólmi að vorlagi árið 1979. Þá fór Björn á Kóngsbakka í Helgafellssveit í ræðustól og kvað bera vel í veiði að ná beinu sambandi við dómsmálaráðherra landsins. Hann sagðist hafa lagt sem svaraði sjö kýrverðum inn á bankabók fyrir nokkrum árum. Þegar hann tók svo aurana út skömmu fyrir fundinn þá fékk hann sem svaraði andvirði sjö smákálfa. Hann sagðist einfaldlega hafa verið rændur og krafðist leiðréttingar af hálfu dómsmálaráðherra. Ólafi vafðist tunga um tönn en sagði að svona væri þetta bara. Þetta var náttúrulega forkastanlegt svar en það má segja það Ólafi til hróss að hann hafði frumkvæði að því fáum misserum síðar að koma verðtryggingu lána í framkvæmd. Það að þeir sem lögðu fjármuni inn á banka eða lánuðu öðrum gátu gengið að því vísu að fá peningana sína til baka gerði allt lánaumhverfi í landinu heilbrigðara. Nú vill þröngur þrýstihópur brjóta þetta kerfi niður. Þegar ekki þarf að hafa sérstaka verðtryggingu í nálægum löndum þá byggir það á því að öll efnahagsstjórn þar er miklu agaðri en hér. Við eigum langt í land með að ná nálægum þjóðum í aga og yfirsýn um almenna efnahagsstjórn.

Shit. Ég var ekki dreginn út í GUCR hlaupinu í Bretlandi. Það var dregið nú á sunnudaginn var. Um 140 manns taka þátt í því. Ég verð þá bara að prufa aftur á næsta ári. Nú verður einfaldara og ódýrara að taka þátt í hlaupum í Bretlandi þegar Easy Jet verður farið að fljúga hingað. Miði fram og til baka kostar undir tuttugu þúsund þegar maður tekur eina tösku með.

laugardagur, nóvember 05, 2011

Gipsy Kings - Volare

Kirkjan og Gamla Húsið á Brjánslæk í kvöldsólinni



Ég hef ekkert bloggað að undanförnu enda er það kannski bættur skaðinn. Ég fór að velta fyrir mér hvers vegna ég væri að þessu. Er það einhver sýniþörf, er það vegna þess að maður heldur að það taki einhver mark á því sem verið er að tuða eða er þetta kannski nokkursskonar dagbók sem gaman er að skoða síðar til að rifja upp hvað hefur verið efst á baugi á fyrri árum. Ég hallast helst að því síðasttalda. Ég byrjaði að blogga í ársbyrjun 2005 þegar ég var að búa mig undir Western States. Þá var það nokkurskonar upphersla eða til að sýna mér sjálfum að það væri engin leið til baka. Þegar væri verið að búa sig undir ákveðið markmið fyrir opnum tjöldum þá væri ekki annað hægt en að standa við fyrirfram ákveðna áætlun og leggja allt undir. Nú er ekki lengur þörf á slíkum trixum í sama mæli og áður. Það er engu að síður gaman að fara yfir hvernig hlutirnir hafa gengið fyrir sig í undirbúningi einstakra hlaupa og í hlaupunum sjálfum.

Þegar bloggheimarnir opnuðust þá var það ágæt nýbreytni og það var gjarna farið yfir sviðið og skannað hvað hinn eða þessi sagði. Nú er það breytt. Ég les yfirleitt ekki að staðaldri nema blogg hjá örfáum mönnum. Annað er allt að því tímaeyðsla. Síðan er annað sem gerir mann fráhverfan að vera að tjá sig á þennan hátt. Það virðist svo sem einhversstaðar sé ákveðið hvernig maður á að hugsa og hvaða skoðanir maður á að hafa, alla vega í sumum málum. Ef einhver dirfist að hafa skoðun sem fellur ekki undir þetta norm þá er ráðist á viðkomandi af þvílíkri heift af það er með ólíkindum. Hægt væri að nefnda nokkur dæmi um það hér en það skal ógert látið. Svona viðbrögð gera það að verkum að maður er farinn að ritskoða sjálfan sig til að lenda ekki í kvörninni. Sjálfsþöggun vegna ótta við vðbrögð við því að ákveðnar skoðanir falli ekki í kramið hjá einhverjum er ekkert annað en merki um að það sé ákveðin skoðanakúgun í gangi. Hér á árum áður var skoðanakúgun kölluð ýmsum nöfnum sem þykja heldur ljót enn í dag. Maður sér einnig að það er ausið yfir menn fúkyrðum og skítkasti í kommentum ef menn dirfast að stíga út af þeirri braut sem hin viðtekna skoðun telur þá einu réttu. Hver er þá tilgangurinn með því að vera að tjá sig opinberlega ef það kallar einungis á að skítdreifarar samfélagsins fá ástæðu til að opna fyrir lokuna. Ábyrgð þeirra fjölmiðla sem leyfa opna umræðu á heimasíðum sínum er mikil. Mér finnst að reynslan hafi sýnt að það sé full ástæða til að loka fyrir það að fólk geti tjáð sig undir dulnefni. Það væri von til að umræðan yrðu aðeins hófstilltari við það.

Ég skráði mig í The Grand Union Canal Race seint í október. Það er 144 mílna hlaup sem liggur frá Birmingham til London og fer fram 2. og 3. júní n.k. Það komast 100 þátttakendur með í hlaupið og þar sem fleiri skráðu sig þá verður dregið um hverjir fá að hlaupa legginn. Drátturinn fer fram um helgina og ég fæ að vita í næstu viku hvort ég kemst inn. Það verður spennandi að sjá hvort það gengur upp því þetta er alvöru hlaup. Þetta er annað lengsta hlaupið í Englandi það ég best veit. Tíminn sem gefinn er er 44 klst. Hlaupið er nokkuð jafnlangt og Spartathlon en þar þurfti maður að ljúka hlaupinu á 36 klst og þar að auki var yfir tvö fjöll að fara sem ekki er raunin á í Englandi. Ef þetta gengur upp þá er það fínt ef ekki, þá finnur maður sér eitthvað annað. Tók 20 km hring í morgun með Jóa, Sigurjóni og Gunna Palla. Það var fínt og lærið er að mestu leyti hætt að láta vita af sér.